Þrír leikir eru á dagskrá í Iceland Express deild karla í kvöld en þeir marka lok tíundu umferð deildarinnar. Í gærkvöldi komst KR á toppinn með Njarðvík og slíkt hið sama getur Stjarnan gert með sigri á Hamri í kvöld. Takist Stjörnumönnum að landa sigri verða þeir einir á toppi deildarinnar þar sem þeir hafa betur innbyrðis gegn bæði KR og Njarðvík.
Hvergerðingar mæta í Ásgarð í kvöld en Hamar hefur 8 stig í 8. sæti deildarinnar. Stjörnumenn, eins og fyrr segir, geta komið sér í toppsætið með sigri í kvöld en þeir lögðu KR í Vesturbænum í síðustu umferð og hafa lagt bæði toppliðin, KR og Njarðvík.
FSu tekur á móti Grindavík á Selfossi í kvöld en Selfyssingar eru á botninum án stiga en Grindvíkingar sitja í 6. sæti deildarinnar með 10 stig. Þriðja viðureign kvöldsins er slagur ÍR og Tindastóls sem fram fer í Kennaraháskólanum. ÍR situr í 7. sæti deildarinnar með 8 stig en Stólarnir hafa 6 stig í 9. sætinu.
Allir leikirnir þrír hefjast kl. 19:15 og verður hægt að tippa á viðureign ÍR og Tindastóls á www.lengjan.is
Þá eru tveir leikir í 2. deild karla, Reynir Sandgerði tekur á móti HK kl. 19:00 í Sandgerði og Árborg mætir Sindra kl. 21:05.
Ljósmynd/ Justin og félagar í Stjörnunni geta komist á toppinn í kvöld.