KR fékk magalendingu í kvöld þegar Hamar varð fyrsta liðið til þess að leggja félagið að velli og það í fyrstu umferð Subwaybikarkeppninnar í kvennaflokki. Þar með hafa bæði karla- og kvennalið félagsins fallið úr leik í fyrstu umferð en bæði liðin léku til úrslita um bikarinn í fyrra. KR-konur urðu þá bikarmeistarar en karlaliðið mátti sætta sig við silfrið. Konurnar úr blómabænum fóru á kostum í Vesturbænum í kvöld og unnu tíu stiga sigur á KR, 64-74.
Ágúst Sigurður Björgvinsson stjórnaði kvennaliði Hamars í kvöld en á sama tíma lék karlalið Hamars við Snæfell og fékk þar háðuglega útreið, 130-75.
Gestirnir frá Hveragerði hófu leikinn í svæðisvörn og héldu sig við það varnarafbrigði uns yfir lauk. Vesturbæingar áttu í mesta basli með að skora í upphafi leiks og í reynd má segja að bæði lið hafi verið hálf spéhrædd í viðurvist körfunnar.
Staðan eftir rúmlega sex mínútna leik var 4-5 Hamri í vil. Jennifer Pfeiffer Finora, sem hvílt hefur í síðustu leikjum sökum meiðsla, var á ný komin í röndótt og kom fljótt inn á leikvöllinn í fyrsta leikhluta. Skotnýting beggja liða var við frostmark í upphafi leiks og staðan jöfn 9-9 að loknum fyrsta leikhluta þar sem Finora smellti niður þrist þegar tvær sekúndur voru eftir.
Fanney Guðmundsdóttir opnaði annan leikhluta fyrir gestina með þriggja stiga körfu og kom Hamri í 9-12 en heimakonur voru fljótar að jafna metin í 14-14. Athygli vakti að Margrét Kara Sturludóttir, sem farið hefur hamförum í liði KR undanfarið, hafði ansi hægt um sig í fyrri hálfleik og virtist vera dottin í sinn gamla gír þegar Finora var að leika með liðinu. Ljóst að Finora tekur mikið til sín enda með átta þriggja stiga skot í fyrri hálfleik þar sem þrjú þeirra rötuðu rétta leið.
Áfram voru sóknir beggja liða fremur viðvaningslegar gegn sterkum vörnum. Guðbjörg Sverrisdóttir jafnaði metin í 26-26 með þriggja stiga körfu þegar rúm mínúta var til hálfleiks en KR-ingar áttu frumkvæðið á lokasprettinum og leiddu 30-28 í leikhléi. KR hefði getað leitt með fjórum stigum í hálfleik ef ekki hefði verið fyrir áræðni Sigrúnar Ámundardóttur sem náði sóknarfrákasti fyrir Hamar og skoraði af miklu harðfylgi síðustu stig fyrri hálfleiksins.
Signý Hermannsdóttir var með 10 stig í liði KR í hálfleik og Finora með 9, öll úr þriggja stiga skotum. Hjá Hamri var Sigrún Ámundadóttir með 10 stig og Guðbjörg Sverrisdóttir með 7. Koren Schram komst ekki á blað í fyrri hálfleik og hafði sig afar lítið í frammi.
Jafnan hefur þriðji leikhlutinn verið alfarið eign KR-inga í kvennaboltanum og þar hafa þær oft gert út um leikina. Eftir þrjá leikhluta í kvöld var jafnt 38-38 og Hamarskonur sýndu ekkert fararsnið á sér!
KR komst í 35-30 en gestirnir létu ekki deigan síga og náðu að minnka muninn í 42-41. Ávallt þegar Hamar fékk vítaskot pressuðu þær eftir vítin og rétt eins og gegn svæðisvörn Hamars var KR nokkuð úrræðalaust gegn pressunni og grýttu boltanum nokkrum sinnum frá sér upp í hendur andstæðinganna.
Fanney Guðmundsdóttir hafði óbilandi trú á þriggja stiga skotunum sínum í kvöld og með einu slíku kom hún Hamri yfir 45-46 þegar 25 sekúndur voru til leiksloka. Finora svaraði að bragði á hinum enda vallarins og KR leiddi 48-46 en Koren Schram sem var loksins vöknuð í liði Hamars brunaði upp völlinn og upp að körfunni og jafnaði metin í 48-48 og þar við sat fyrir lokasprettinn.
Aftur var Fanney á ferðinni fyrir utan þriggja stiga línuna í upphafi fjórða leikhluta og kom Hamri í 48-51 og að sama skapi virtist KR skorta sjálfstraustið í teignum til að klára sóknir sínar gegn ákveðinni og vel skipulagðri svæðisvörn Hamars.
Þegar fimm mínútur voru liðanar af fjórða leikhluta hafði Hamar náð upp 10 stiga forskoti 48-58. Margrét Kara minnti á sig í liði KR með þrist og staðan 53-62 en Hamarskonur voru komnar til þess að sýna fram á að KR væri ekki ósigrandi.
KR pressaði, reyndi að taka áhættur í vörninni en ekkert gekk upp. Hamar fór vel með boltann og hafði að lokum verðskuldaðan 10 stiga sigur 64-74.
Fjórir leikmenn í liði Hamars gerðu 10 stig eða meira í leiknum og þeirra atkvæðamest var Sigrún Ámundadóttir með 18 stig og 6 fráköst. Guðbjörg Sverrisdóttir átti ljómandi góðan dag með Hamri og setti 17 stig og þær Fanney Guðmundsdóttir og Koren Schram voru báðar með 13 stig. Hrósa ber vörn Hamars sem sýndi á sér fá ef nokkur veikleikamerki í kvöld.
Hjá KR var Finora atkvæðamest með 18 stig en hún tók nákvæmlega helming þriggja stiga skota KR í leiknum, alls 13 talsins af 26 og hún setti niður sex þeirra. Fín þriggja stiga nýting en að sama skapi var eins og aðrir leikmenn, þá sérstaklega Margrét Kara, væru bara áhorfendur en Kara var fjarri sínu besta með 8 stig og 4 fráköst samanborið við 28 stig í leiknum gegn Grindavík á dögunum þar sem Finora naut ekki við. Hvort eitthvert orsakasamhengi sé þarna á milli skal ósagt látið en það sást vel í kvöld að leikmaður á borð við Finora tekur mikið til sín og þá er kakan minni fyrir aðra leikmenn, eiginlega bara smákaka.
Signý Hermannsdóttir skilaði venju samkvæmt sinni tröllatvennu og átti góðar rispur með 14 stig og 20 fráköst auk þess sem hún varði 5 skot.
Hamarskonur eru því komnar áfram og eflaust margir sem vilja nú afhenda þeim bikarmeistaratitilinn strax í dag. Hamar sýndi þó í kvöld að svoleiðis þankagangur gengur lítið enda höfðu flestir ekki búist við tapleik hjá KR í kvöld.