spot_img
HomeFréttirHaukastúlkur hressari í Hólminum

Haukastúlkur hressari í Hólminum

 
Snæfell tók á móti Haukum í Iceland express deild kvenna í Fjárhúsinu Stykkishólmi. Haukastúlkur byrjuðu að krafti og komust í 5-20 um miðjann fyrsta hluta og voru grimmari í sóknum sínum en Snæfell sem fengu skotin en nýttu illa. Snæfell saknaði greinilega Kristen Green sem sat á tréverkinu og á við ökklameiðsli að stríða. Heather Ezell var í góðum gír fyrir Hafnfirðinga og hafði sett 14 stig af þeim 27 sem Haukar höfðu yfir eftir fyrsta hluta á móti 11 stigum Snæfells.
Annar hluti var jafnari og var Snæfell að stilla sig aðeins betur varnarlega og spiluðu einnig betri og árangursríkari sóknir sem skilaði þeim því að halda sér inn í leiknum en ekki hleypa Haukum of langt frá sér eins og í stefndi í byrjun leiks. Haukastúlkur slökuðu á taumnum í vörninni og skiluðu Snæfelli tveimur stigum betur í öðtum hluta en Haukar leiddu 30-45 í hálfleik.
 
Heather Ezell setti 20 stig fyrir Hauka í fyrri hálfleik en Gunnhildur 9 stig fyrir Snæfell og Hrafnhildur 7 stig.
 
Það var munurinn í fyrsta hluta sem var Snæfelli virkilega erfiður en jafnræði var með liðunum í þriðja hluta líkt og öðrum þar sem Snæfell náði að saxa niður um tvö stig og voru eftir þriðja hluta 11 stigum undir 54-66. Snæfell skoraði fyrstu fimm stig fjórða hluta og voru að nálgast Hauka með meiri krafti en Gunnhildur Gunnars leiddi heimastúlkur í baráttunni á meðan Heather Ezell dró Hauka áfram ásamt Rögnu Margréti og Guðrúnu Ámunda.
 
Staðan var lengi 61-72 fyrir Hauka í fjórða hluta eða þangað til 1:20 voru eftir þegar Heather setti niður tvö víti. Haukastúlkur létu ekki eftir forskot sitt baráttulaust og héldu sínu þrátt fyrir nokkur áhlaup Snæfells í leiknum. Haukar áttu svo sigur í leiknum 63-77 og fóru með það í farteskinu í Fjörðinn.
 
Hjá Snæfelli var Gunnhildur öflug með 19 stig. Björg 10 stig og Hrafnhildur 9 stig. Hjá sterkum Haukum var Heather Ezell allt í öllu með 32 stig og 16 fráköst. Ragna Margrét var hress með 12 stig og 14 fráköst og Guðrún Ámundar var með 14 stig.
 
 
Texti: Símon B. Hjaltalín.
Fréttir
- Auglýsing -