Subwaybikarmeistarar KR eru á toppi Iceland Express deildar kvenna nú þegar keppni í úrvalseildinni er lokið þetta árið. KR hefur unnið alla 11 deildarleiki sína og þurfa ekki nema einn sigur til viðbótar til að gulltryggja sér efsta sætið fyrir skiptingu á deildinni í A- og B-riðil. Í kvöld mátti Keflavík kenna á tevatni KR en lokatölur í DHL-Höllinni voru 70-55 KR í vil.
Fyrrum liðsmaður Keflavíkur, Margrét Kara Sturludóttir, gerði fyrstu stig leiksins í kvöld og kom KR yfir og heimamenn litu aldrei til baka, héldu forystunni út allan leikinn og unnu verðskuldaðan sigur.
Venju samkvæmt skilaði Signý Hermannsdóttir af sér myndarlegri tvennu í liði KR. Í kvöld setti hún niður 11 stig og tók 14 fráköst. Þá varði Signý 6 skot í leiknum en stigahæst í liði KR í kvöld var Unnur Tara Jónsdóttir með 15 stig, 6 fráköst og 7 fiskaðar villur.
Birna Valgarðsdóttir var atkvæðamest í liði Keflavíkur með 22 stig og 9 fráköst en næst henni var Kristi Smith með 14 stig og 8 fráköst.
KR er sem fyrr segir á toppi deildarinnar með 11 stig, ósigraðar, en Keflvíkingar eru í 4. sæti með 10 stig þar sem Njarðvík og Haukar sækja hart að, bæði með 8 stig.