Samtök íþróttafréttamanna sem sjá um kjör á íþróttamanni ársins hafa nú greint frá því hverjir eru á topp 10 listanum þetta árið en kjörið fer nú fram í 54. skipti. Tveir körfuknattleiksmenn eru á listanum og er það í þriðja skiptið í sögu kjörsins og í fyrsta skipti í sögunni kemst körfuknattleikskona á topp 10.
Það eru þau Jón Arnór Stefánsson og Helena Sverrisdóttir sem eru á listanum þetta árið og er þetta í sjöunda skipti sem Jón Arnór kemst á topp 10 en eins og fyrr segir hefur Helena ekki komist þar áður. Síðast þegar tveir körfuknattleiksmenn komust á topp 10 var 1986 þegar Pétur Guðmundsson og Pálmar Sigurðsson voru þar en árið 1968 komust Birgir Örn Birgis og Þorsteinn Hallgrímsson á topp 10.
Þorsteinn er jafnframt sá körfuknattleiksmaður sem oftast hefur komist á topp 10, alls 8 sinnum svo Jón Arnór er farinn að narta í hælana á Þorsteini.
Kolbeinn Pálsson var kjörinn íþróttamaður ársins 1966 og er það í eina skiptið sem sú nafnbót hefur fallið í skaut körfuknattleiksmanns.
[email protected]
Mynd: Heimasíða TCU