spot_img
HomeFréttirÍ dag er alltof oft annað láta ganga fyrir

Í dag er alltof oft annað láta ganga fyrir

 Blaðamaður karfan.is hitti á dögunum Guðbjörgu Norðfjörð fyrrum leikmann Hauka, KR og landsliðsins. Okkur lék forvitni á hvað það hafi verið sem varð til þess að Guðbjörg hóf að iðka körfuknattleik og spurðum hana svona út í hitt og þetta tengdu körfunni.
 
12 ára gamall íþróttafíkill
 
12 ára gömul byrjaði Guðbjörg að spila körfubolta með Haukum í Hafnarfirði, undir stjórn Tryggva Ásgrímssonar, eftir að hafa verið búin að prófa allar aðrar íþróttir sem í boði var í Hafnarfirði og voru það vinkonur hennar sem æfðu fyrir sem drógu hana á æfingu.
 
„Þegar ég tilkynnti mömmu og pabba það að ég væri farin að æfa körfu þá brostu þau út í annað og héldu að þetta yrði bara enn ein greinin sem ég ætlaði að prófa,” sagði Guðbjörg um upphafið af löngum og farsælum körfuboltaferli sínum.
 
Eins og fyrr segir var það Tryggvi Ásgrímsson sem var hennar fyrsti þjálfari en fljótlega tók við annar þjálfari sem Guðbjörg segist hafa lært mikið hjá.
 
„Ég komst aldrei í liðið hjá Tryggva” segir Guðbjörg um fyrsta þjálfarann hlær dátt en bætir við „Fljótlega tók við þjálfari sem heitir Halla og hún var algjörlega frábær, hún bjó til mikinn áhuga í liðinu og allt liðið tók þvílíkum framförum enda urðum við Íslandsmeistarar það árið. Ég man að lið ÍR var mjög sterkt og við töpuðum fyrir þeim í fyrsta fjölliðamótinu með milli 20 og 30 stigum en unnum þær síðan í næsta fjölliðamóti með sama mun og enduðum sem meistarar. Þetta lýsir kannski best framförunum sem urðu á liðinu undir hennar stjórn”
 
Guðbjörg mundi ekkert sérstaklega eftir sínum fyrsta leik en sagði að að þessi reynsla hafi svo gott sem blokkað fyrir minninguna um fyrsta leikinn enda ávallt minnisstætt að verða Íslandsmeistari. Tilfinningin að verða meistari þekkir Guðbjörg vel enda margoft orðið Íslands.- og bikarmeistari með bæði Haukum og KR. Það lág því beinast við að spurja Guðbjörgu hver þeirra hafi verið sætastur?
 
„ Sætasti sigurinn á ferlinu var tvímælalaust þegar við í KR vorum 2-0 undir á móti ÍS 2002 í úrslitum og unnum Íslandsmeistaratitilinn 3-2 alveg hrikalega sætt,” sagði Guðbjörg og glotti við tönn.
 
Lék lengst af með KR
 
Guðbjörg spilaði lengst af með KR í meistaraflokki en kom yfir til Hauka og spilaði með þeim í 2. deild kvenna. Hún stoppaði þó stutt við og fór aftur yfir í KR á miðju tímabili. Okkur lék forvitni á að vita hvort það hefði aldrei komið til greina að enda ferilinn með uppeldisliði sínu, Haukum, og afhverju hún fór aftur yfir í KR á miðju tímabili?
 
„Ég spilaði í KR frá 1992-2002 utan nokkra mánuði sem ég skipti yfir í Hauka sem var að spila í 2. deildinni (nú 1. Deild). Ég hélt að ég gæti hjálpað Haukum aðeins en þar sem þær voru með svo gott lið fannst mér ekki sanngjarnt að ég væri að taka af ungu stelpunum mínútur enda unnu þær 2. deildinni mjög létt með Helenu (Sverrisdóttur) í fararbroddi. Ég skipti því aftur yfir í KR og við urðum einmitt þá Íslandsmeistarar eftir að hafa unnið ÍS 3-2 eftir frábæra seríu. Þá gat ég hætt sátt enda ólétt af prinsessu númer tvö,” segir Guðbjörg og bætir við svarinum um það hvort það hafði aldrei hvarflað að henni að enda ferilinn með Haukum.
 
„Í raun ekki þó ég hafi nú fengið tækifæri til þess því Ágúst Björgvinsson bauð mér að gera það þegar hann var með Haukastelpurnar. Ég spilaði með Haukum B í bikarkeppninni þar sem við þurftum að fara vestur á Ísafjörð í byrjun janúar. Það var snilldar ferð enda tóku Hauka- og KR- hjónin Sólveig Pálsdóttir og Guðni Ó Guðnason mjög vel á móti okkur. Við unnum þann leik og lentum þá á móti Grindavík og “rétt” töpuðum fyrir þeim,” segir Guðbjörg sem segir sig vera Haukamann þó svo að KR-hjartað slái oft öðru hverju.
 
„Ég er uppalin í Hafnarfirði og bjó nú alltaf í Hafnarfirði þó að ég æfði í Reykjavík. Þannig að ég er Hafnfirðingur fram í fingurgóma. Í dag er ég meiri Haukamaður en það slær oft mikið og hratt KR-hjartað. Allt það fólk sem ég kynntist í KR er frábært og þegar ég kem í Frostaskjól er alltaf tekið vel á móti mér.”
 
Guðbjörg hefur alls ekki sagt skilið við körfuna þrátt fyrir að vera hætt að spila. Hún starfar sem íþróttafulltrúi Knattspyrnufélags Hauka, þjálfar fyrir körfuknattleiksdeild sama félags, situr sem varaformaður KKÍ og er formaður landsliðsnefndar kvenna. Hún fylgist því mikið með boltanum í dag en segist ekki fá kítl í puttana.
 
„í raun ekki, ég hætti sátt og nú hef ég prinsessurnar mínar þrjár til að hugsa um og ein er byrjuð í körfu hjá Haukunum. Einnig er ég varaformaður KKÍ og starfa mikið í kringum kvennalandsliðið. Þannig að minni körfuboltaþörf er fullnægt í bili,” segir Guðbjör og hlær en vill klárlega sjá meiri metnað hjá mörgum leikmönnum í dag.
 
Vill sjá meiri metnað hjá stelpunum
 
Það er ljóst að afreksmanna hugsun Guðbjargar kveiknaði strax og hún hóf að stunda íþróttir og alveg ljóst að hún ætlaði sér að ná langt í boltanum. Guðbjörg segir að grunnur leikmanna í dag sé miklu betri en hann var þegar hún var að byrja en að meira vanti upp á metnaðinn. Hún talar um að aldrei hafi það komið fyrir að hún missti af æfingu og sama hvað á dundi og að allt annað var sett til hliðar. Þegar landsliðskallið svo kom þá var ekki verið að velta því fyrir sér hvort að hún ætti að taka það að sér heldur kom ekkert annað til greina en að spila fyrir land og þjóð.
 
„Í dag er alltof oft annað láta ganga fyrir. Ef við ætlum okkur að verða betri þá þurfa allar að leggja á sig þetta extra, það er ekki nóg að bara nokkrar geri það. Til þess að verða afreksmaður þarftu að fara á aukaæfinguna aftur og aftur,” segir Guðbjörg um hvað þurfi til að skara fram úr í greininni.
 
Talandi um að skara fram úr. Heldur Guðbjörg að Helena Sverrisdóttir muni fara alla leið og spila í WNBA?
 
„Ég er ekki í nokkrum vafa um það. Helena er frábær leikmaður sem hefur unnið fyrir öllu sem hún getur. Hún æfir eins og brjálæðingur og hefur alltaf gert. Hún hefur sína drauma og markmið sem er nauðsynlegt. Hún er alltaf tilbúin að spila fyrir land og þjóð og gerir allt til þess að það sé mögulegt. Ég get haldið áfram í marga daga að telja upp hennar kosti og hæfileika. Hún er alltaf til í að skila einhverju til okkar hinna, ef ég bið hana að koma á æfingu hjá stelpunum mínum þá hikar hún ekki, segir alltaf já. Hún kom í fyrra og talaði við stelpurnar mínar og sjá andlitið á þeim – þar var virðing.”
 
En finnst Guðbjörgu vera mikill munur á deildinni núna og þegar hún var að spila?
 
„Já, á jákvæðan hátt. Núna byrja stelpur að æfa miklu fyrr og læra grunnatriðin snemma sem er gott. Eins og fræðin segja þá er besti hreyfinámsaldurinn milli 9 og 12 ára og þá soga stelpurnar til sín þekkingu sem þjálfarar verða að vera tilbúnir að veita þeim. Einnig eru í dag mun fleiri hæfari þjálfarar með gríðarlega reynslu að þjálfa. Við hjá félögunum verðum að hafa þá hugsjón að setja góða og reynslumikla þjálfara á yngstu þátttakendurna, ekki eins og í denn þegar leikmenn fengu það sem umbun að þjálfa en höfðu engan tíma og stundum ekki áhuga á því. Þegar ég var að þjálfa hér í denn var hugsunin allt öðruvísi og að spila sjálf gekk alltaf fyrir. Nú í dag er hugsunin hjá mér allt öðruvísi og hef ég mun meiri ánægju af því að þjálfa.”
 
Þjálfun og keppinautar
 
Guðbjörg hefur nú verið að þjálfa í nokkur ár og segir að það hafi alveg komið upp löngun til að þjálfa meistaraflokk einhversstaðar en í ljósi þess að hún sé með þrjú tiltölulega lítil börn þá hefur það ekki gengið upp.
 
„Börnin verða ekki aftur lítil en ég get alltaf dottið í það að þjálfa seinna” segir hún og er klárlega með forgangsröðina á hreinu.
 
Það er varla hægt að taka viðtal við Guðbjörgu án þess að nafn Önnu Maríu Sveinsdóttur sé ekki nefnt á nafn og var það það fyrsta sem að Guðbjörg sagði þegar hún fékk spurninguna um hver hafi verið erfiðasti andstæðingurinn.
 
„Það er nú enginn spurning, Anna María Sveinsdóttir. Hún var nú ekki sú auðveldasta, ég dekkaði hana nánast alltaf og stundum gekk það vel og stundum mátti það ganga betur. Ég sagði nú líka oft að ég sjálf hefði verið erfiðasti andstæðingurinn því ef hausinn var ekki í lagi þá gekk nú lítið upp enda keppnisskapið stundum alveg að drepa mig,” segir Guðbjörg hlægjandi en hún er þekkt fyrir mikið keppnisskap.
 
Hélt að KR myndi fara ósigraðar í gegnum veturinn.
 
„Ég var þess fullviss að KR myndi rúlla þessu móti upp eins og við gerðum 1999 þegar við unnum alla okkar leiki í KR. Þetta lið svipar að einhverju leyti til þess liðs, mikil leikgleði og frábær liðsheild. Ég spái þeim Íslandsmeistaratitlinum. Þær duttu óvænt út í bikarnum þannig að ég ætla að halda með mínu félagi, Haukum, og spá þeim bikarnum. Haukar hafa frábæran útlending, það er ekki oft sem ég heillast svona af útlendingunum en Heather (Ezell) er frábær leikmaður, hefur mikið power, er sterk, mikið sterkari en hinir leikmennirnir í deildinni og er með frábært skot. Þá held ég að ungu leikmennirnir komi sterkir inn í þessum leikjum” segir Guðbjörg að lokum um hvert titlarnir muni fara á þessu tímabili.
 
Guðbjörg vildi að lokum koma þeim skilaboðum áleiðis að fólkið í körfuboltahreyfingunni þyrfti að vera duglegt að tala vel um okkar íþrótt innan sem utan og að við þyrftum að vinna saman í að gera körfuboltann betri. Svo vill Guðbjörg sjá allar stelpurnar sýna metnað til að fara með kvennakörfuna á næsta stig.
 
 
Mynd: kki.is
Fréttir
- Auglýsing -