Njarðvíkingar hafa gert munnlegt samkomulag við Nick Bradford um að leika með liðinu út tímabilið. Bradford mun koma til landsins í kvöld og í kjölfarið verður farið yfir samninga og væntanlega skrifað undir. Ef allt gengur upp verður Bradford fyrsti erlendi leikmaðurinn til að spila með öllum þremur Suðurnesjarisunum í úrvalsdeildinni.
Sigurður Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga sagði í samtali við Karfan.is að hinsvegar væri ekkert komið á hreint fyrr en að blek er komið á pappírinn og leikmaðurinn kominn til landsins. "Reynslan hefur kennt mér að staðfesta ekki neitt fyrr en að búið að er að ganga frá öllum lausum endum. En ef allt gengur upp þá er þetta vissulega góður fengur. Nick er þekkt stærð, hann þekkir vel til á Íslandi og veit vissulega til hvers er ætlast af honum."
Án nokkurs vafa er þetta gríðarlegur styrkur fyrir þá grænklæddu sem fyrir eru með þó nokkuð sterkann hóp. Eins og Karfan.is greindi frá á dögunum þá var Nick rekinn frá Finnlandi fyrir að gerast sekur um óvirðingu við liðsfélaga og forráðamenn síns liðs þar lendis, en kappinn er svo sem þekktur fyrir allt annað en að liggja á skoðunum sínum.