Fjölnismenn gerðu heiðarlega tilraun til þess að leggja topplið Stjörnunnar að velli í Grafarvogi í kvöld en áttu ekki nóg á tanknum til að klára ætlunarverkið. Garðbæingar fóru á kostum í fjórða leikhluta og héldu gestgjöfum sínum stigalausum í tæpar sex mínútur! Jovan Zdravevski átti stórleik í liði Stjörnunnar og gerði 30 stig, tók 4 fráköst og gaf 3 stoðsendingar. Þrenningin eins og þeir Jovan, Justin og Fannar þekkjast skoraði 72 af 100 stigum Stjörnunnar í kvöld.
,,Þetta var góð leið til að hefja síðari hluta mótsins,“ sagði Jovan kátur í leikslok í samtali við Karfan.is. ,,Annars á ég von á því að Snæfell fari brátt að blanda sér í baráttuna um toppsætin fjögur en það eru nokkur lið sem eru að fá nýja leikmenn svo þessi síðari hluti gæti verið nokkuð öðruvísi en sá fyrri,“ sagði Jovan en hafa hann og Stjörnumenn burði til að klára mótið á aðeins 10 leikmönnum eins og þeir telfdu fram í kvöld?
,,Til þess að komast áfram í úrslitakeppninni þurfum við fleiri leikmenn af bekknum til að koma klára í leikina og það væri gott ef Guðjón Lárusson færi að detta inn í hópinn og þannig fengjum við kannski meiri hvíld,“ sagði Jovan en Guðjón hefur ekkert leikið í vetur sökum meiðsla. Það hvíla því þungar byrðar á herðum Jovans, Justins og Fannars en Jovan segist ekki finna fyrir pressu.
,,Ég myndi þó fagna því ef það kæmu menn og settu stig á töfluna og myndu jafna út svona vissa tölfræðiþætti í okkar leik,“ sagði Jovan sem var sérlega beittur í síðari hálfleik í kvöld.
Níels Dungal lék ekki með Fjölnismönnum í kvöld sökum meiðsla og þá voru þeir Ólafur Aron Yngvason og Guðjón Hrafn Lárusson fjarverandi vegna meiðsla í herbúðum Stjörnunnar.
Það var allt til alls í Dalhúsum í kvöld, sjoppusalan á sínum stað, fín músík og ljósasýning þegar leikmenn voru kynntir til leiks. Það eina sem vantaði voru áhorfendur og þá tilfinnanlega stuðningsmenn Fjölnis sem undirrituðum þykir afar súrt í broti þar sem Fjölnismenn eru með eitthvert efnilegasta lið deildarinnar. Þeir 120 áhorfendur sem greiddu aðgang á leikinn fengu flottar 30 mínútur en þær tíu síðustu voru fátt annað en einstefna af hálfu Stjörnunnar.
Liðin skiptust á að skora í upphafi leiks og hittu vel. Sindri Kárason kom sterkur af bekk Fjölnismanna og barðist vel í teignum. Tómas Tómasson átti síðasta orðið í upphafsleikhlutanum er hann setti niður þrist þegar 9 sekúndur voru eftir og því stóðu leikar 25-28 fyrir Stjörnuna í leikhluta þar sem vörnina var hvergi að finna.
Leikstjórnandinn Ægir Þór Steinarsson fékk það vandasama hlutverk að gæta Justins Shouse og gerði það ágætlega en Justin sá Ægi fyrir miklum önnum og var kominn með 15 stig í hálfleik.
Ísfirðingurinn Birgir Pétursson kom Stjörnunni í fyrsta sinn í 10 stiga mun er hann reif niður sóknarfrákast og skoraði svo af harðfylgi og staðan 36-43. Liðin gengu svo til leikhlés í stöðunni 46-53 Stjörnunni í vil.
Jovan var stigahæstur í hálfleik hjá Stjörnunni með 17 stig en Christopher Smith var með 14 stig hjá Fjölni en hann olli usla í teig Stjörnunnar og oftast þurftu Garðbæingar að beita tvídekkun gegn honum.
Fjölnismenn fengu á sig 53 stig í fyrri hálfleik á sínum eigin heimavelli og myndu eflaust margir halda að þeirra forgangsverkefni væri að þétta vörnina en þau tilbrigði sáust ekki. Heimamenn komu sér auk þess í fín færi og áttu gnægt opinna skota en þau vildu ekki rétta leið. Engu að síður héngu Fjölnismenn í Stjörnunni sem leiddi 67-72 fyrir lokasprettinn og unnu heimamenn þriðja leikhluta 21-19.
Fyrir fjórða leikhluta var ljóst að heimamenn voru ekki nægilega sáttir við skotnýtinguna sína fyrstu 30 mínúturnar. Í reynd má segja að allt sjálfstraust hafi verið úr skotum heimamanna um leið og fjórði leikhluti var flautaður í gang.
Stjörnumenn voru algerlega einráðir á vellinum í fjórða leikhluta. Gestirnir léku vel allir sem einn en þeirra fremstur var Jovan og virtust Fjölnismenn engin ráð hafa gegn honum. Þá var vörn Stjörnunnar einnig föst fyrir og erfiðara og erfiðara varð fyrir Smith að fá boltann á blokkinni enda gekk hvorki né rak hjá honum síðustu 10 mínúturnar.
Þegar Fjölnismenn loksins gerðu sín fyrstu stig í fjórða leikhluta eftir tæplega sex mínútna leik var það einfaldlega of seint. Smith minnkaði þá muninn í 69-88, Stjarnan lét þessa vænlegu stöðu ekki úr höndum sér ganga og kláruðu leikinn 80-100.
Karfan.is leitaði viðbragða hjá Ægi Þór Steinarssyni eftir leik en hann var með 11 stig, 9 stoðsendingar, 5 fráköst og 5 stolna bolta í leiknum.
,,Vörnin var aldrei góð í fyrri hálfleik, ég veit ekki með seinni en það var kannski viljinn til að vinna sem vantaði. Það skiptir ekki máli hvort þú sért að leika við liðið í fyrsta sæti eða ekki, viljinn til að vinna verður að vera til staðar,“ sagði Ægir og vonbrigðin yfir frammistöðu Fjölnis á lokasprettinum leyndu sér ekki í máli Ægis.
,,Mér finnst við leggja okkur vel fram en Stjarnan reyndist bara vera betri í lokin. Við vitum samt að við getum spilað betri vörn og betri sóknarleik og við getum hitt betur og erum að spila okkur í færin sem við viljum vera í. En þá kemur þarna inn viljinn til að klára dæmið en samt hef ég enga betri skýringu á því en að Stjarnan var bara betri en við í seinni hálfleik,“ sagði Ægir en stigahæstur í liði Fjölnis í kvöld var Christopher Smith með 25 stig og 14 fráköst. Næstur honum kom svo Ingvaldur Magni Hafsteinsson með 14 stig og 6 fráköst.
Eins og fyrr segir var Jovan Zdravevski með 30 stig í liði Stjörnunnar, Justin Shouse var skeinuhættur að vanda með 27 stig, 6 stoðsendingar, 5 fráköst og 4 stolna bolta og þá var Fannar Freyr Helgason með 15 stig og 7 fráköst. Kjartan Atli Kjartansson minnti einnig á sig fyrir utan þriggja stiga línuna en hann gerði 13 stig í kvöld og setti niður öll þrjú þriggja stiga skotin sín.
Stjarnan er því enn á toppi Iceland Express deildarinnar með betur innbyrðis gegn Njarðvík og KR sem líka hafa 20 stig á toppnum.
Jón Björn Ólafsson – [email protected]