spot_img
HomeFréttirÞrettánda umferð í IEX kvenna fer fram í kvöld

Þrettánda umferð í IEX kvenna fer fram í kvöld

Fjórir leikir fara fram í kvöld þegar þrettánda umferð Iceland Express deildar kvenna hefur sig til flugs. Allir fjórir leikirnir hefjast kl. 19:15 og nú fer hver að verða síðastur því aðeins fjögur stig eru eftir í pottinum áður en deildinni verður skipt upp í A og B riðil.
Stórleikur kvöldsins er vafalítið viðureign KR og Hamars sem fram fer í DHL-Höllinni en Hamarskonur eru eina liðið þessa leiktíðina sem unnið hefur sigur á KR. Þá var það þétt svæðisvörn Hamars sem lék KR grátt og því spurning hvort Ágúst og Hvergerðingar mæti með sömu hernaðaráætlun í kvöld. Úrslit úr þessum leik hafa ekki áhrif á niðurröðun í riðla því KR, Hamar og Grindavík eru öll örugg með sæti sitt í A-riðli.
 
Grindavík fær Valskonur í heimsókn í Röstina og fyrir leikinn er ljóst að Valur mun leika í B-riðli en Grindavík í A. Valur situr á botni deildarinnar með 4 stig en Grindvíkingar eru í 2.-3. sæti ásamt Hamri með 16 stig.
 
Haukar taka á móti Njarðvíkingum að Ásvöllum í Hafnarfirði en næstu tveir leikir skipta Hauka öllu máli þar sem þeir eiga enn möguleika á því að komast í A-riðil. Njarðvíkingar höfðu sigur í fyrri viðureign liðanna í Ljónagryfjunni en þar þurfti framlengingu til að fá niðurstöðu.
 
Snæfell tekur svo á móti Keflavík í Stykkishólmi en Snæfell verður í B-riðli á meðan Keflvíkingar eru ekki enn öruggir með sæti sitt í A-riðli. Keflavík hefur 12 stig og með sigri í kvöld fara þær langt með að tryggja sæti sitt í A-riðli. Reyndar eiga Haukar og Keflavík eftir að mætast í síðustu umferðinni áður en skipt verður í riðla. Ef við gefum okkur að bæði Haukar og Keflavík landi stigum í kvöld þurfa Haukar að vinna Keflavík í Toyotahöllinni með tveggja stiga mun eða meira til þess að hafa betur innbyrðis og þannig komast í A-riðil.
 
Laugdælir og Keflavík mætast svo í unglingaflokki karla í kvöld kl. 19:45 að Laugarvatni og Keflavík tekur á móti Stjörnunni í bikarkeppninni í 9. flokki drengja kl. 19:00 í Toyotahöllinni. Þá mætast Keflavík og Grindavík í Suðurnesjaslag í Toyotahöllinni kl. 20:15 í bikarkeppninni í 10. flokki stúlkna.
 
Fréttir
- Auglýsing -