Eflaust biðu margir spenntir eftir Reykjavíkurrimmu ÍR og KR í Kennaraháskólanum en þeir fengu 20 spennandi mínútur og svo 20 mínútur þar sem KR kenndi ÍR að spila körfubolta. Lokatölur í Kennó voru 76-103 KR í vil þar sem þeir Semaj Inge og Jón Orri Kristjánsson skiptust á troðslunum og voru nokkrar þeirra svakalegar. Til allrar lukku voru meistararnir frá www.sporttv.is á staðnum og tóku upp glæsitilþrifin svo þeir sem hafa áhuga eru hvattir til að vippa sér inn á þessa mögnuðu síðu og horfa á leikinn.
Gunnlaugur Elsuson var sprækur í upphafi leiks og smellti niður tveimur þristum og með þeim síðari kom hann ÍR í 9-6. Háloftafuglinn Semaj Inge var næstur á svið og með tveimur troðslum í röð kom hann KR yfir, 11-12. Glæst tilþrif hjá Inge í sókninni en að vanda lék hann líka frábæra vörn.
Þegar tvær mínútur voru eftir af upphafsleikhlutanum fékk bekkurinn hjá KR dæmdar á sig tvær tæknivillur fyrir mótmæli og ÍR-ingar héldu á línuna og breyttu stöðunni í 20-17. Mótlætið virtist aðeins herða á KR-ingum sem gerðu 5 síðustu stig leikhlutans og leiddu 20-22 að leikhlutanum loknum. Í síðustu sókninni gerðu KR-ingar vel að finna Jón Orra Kristjánsson í teignum sem skoraði af harðfylgi um leið og leiktíminn rann út.
Tommy Johnson bauð upp á þrist og breytti stöðunni í 20-29 fyrir KR snemma í örðum leikhluta þar sem gestirnir gerðu 7 fyrstu stigin. Gunnlaugur Elsuson rauf múrinn fyrir heimamenn með körfu í teignum en skotnýting ÍR-inga var mjög svo döpur. Sovic minnkaði muninn í 29-33 með fimm ÍR stigum í röð en KR-ingar voru duglegir að finna Jón Orra og Fannar í teignum þar sem ÍR-ingar eru hvað veikastir fyrir.
Varnir beggja liða voru nokkuð agaðari í öðrum leikhluta samanborið við þann fyrsta þar sem villurnar hrúguðust á töfluna. Þegar svo 40 sekúndur voru til hálfleiks fékk Sovic sína þriðju villu í liði ÍR og KR leiddu 39-45 í hálfleik. KR vörnin var fín í öðrum leikhluta og það hjálpaði Vesturbæingum töluvert að ÍR-ingar misnotuðu hvert skotið á fætur öðru.
Nemanja Sovic var með 15 stig í hálfleik hjá ÍR en Semaj Inge með 13 stig í liði KR ásamt því að leika fantavörn á Michael Jefferson sem átti í mesta basli í sóknarleik sínum.
Snemma í þriðja leikhluta voru lykilleikmenn beggja liða að detta í villuvandræði svo villunum fækkaði en skot ÍR vildu ekki heldur detta í þriðja leikhluta á meðan gestirnir voru mun grimmari. KR-ingar voru naskir og duglegir við að koma boltanum í teiginn þar sem Vesturbæingar hafa óumdeilda yfirburði gegn ÍR og mörgum öðrum liðum deildarinnar.
Tommy Johnson kom KR í 12 stiga mun með þriggja stiga körfu, 45-57 og skömmu síðar tóku ÍR-ingar leikhlé enda varnarleikur liðsins í molum. Þrátt fyrir að ÍR-ingar hefðu ráðið ráðum sínum var það Semaj Inge sem vildi ekki sjá að gestgjafar sínir næðu enn eina ferðina að narta í hæla KR. Inge fór á kostum á lokaspretti þriðja leikhluta og Jón Orri Kristjánsson toppaði flottan leikhluta gestanna með skrímslatroðslu þegar 8 sekúndur voru eftir og leikar stóðu 56-74 fyrir KR að loknum þremur leikhlutum.
Brynjar Björnsson og Tommy Johnson sáu til þess í upphafi fjórða leikhluta að ÍR ætti aldrei möguleika á því að komast aftur inn í leikinn. Kapparnir komu með tvo þrista á skömmu millibili og KR gerði fyrstu 11 stig leikhlutans og leiddu þá 59-85. Eftir þetta var það einvörðungu spurning um lokatölur, hvort ÍR næði að bjarga andliti að hluta til eða hvort KR myndi þramma enn hraustlegar yfir heimamenn.
Raunin varð 27 stiga sigur KR-inga 76-103 og var það viðeigandi að hinn ungi og efnilegi Kristófer Acox skyldi eiga síðasta orðið með troðslu fyrir KR. Kippti hann þar verulega í kynið þar sem karl faðir hans, Terry Acox, var ekki óvanur háloftunum hér í ,,denn“ þegar hann lék með ÍA en Terry er þekktur sem einhver mesti háloftafugl sem leikið hefur hérlendis.
Semaj Inge fór á kostum í KR-liðinu með 29 stig og 5 fráköst og næstur honum kom Tommy Johnson með 26 stig. Nemanja Sovic gerði 22 stig í liði ÍR og Michael Jefferson var með 20 stig og rúmur helmingur þeirra kom þegar sigur KR var í höfn en Semaj Inge klippti Jefferson út úr leiknum með grimmum varnarleik.
Eftir sigur KR í kvöld verma þeir röndóttu toppinn með Njarðvíkingum þar sem bæði lið hafa 22 stig en næst þeim koma Keflavík og Stjarnan með 20 stig.
Ljósmynd/Tomasz Kolodziejski: Semaj Inge með eina af nokkrum troðslum sínum í leiknum.
Texti: Jón Björn Ólafsson – [email protected]