spot_img
HomeFréttirPáll: Líklegt að við bætum við manni

Páll: Líklegt að við bætum við manni

 
Íslandsmeistarar KR sýndu hvers þeir eru megnugir í gærkvöldi þegar þeir mættu ÍR í Reykjavíkurslag Iceland Express deildarinnar í Íþróttahúsi Kennaraháskólans. Jafnt var á með liðunum í fyrri hálfleik en í þeim síðari fóru Vesturbæingar á kostum með Semaj Inge fremstan í flokki. Karfan.is ræddi við Pál Kolbeinsson þjálfara KR sem var sáttur með sigurinn en sagði engu að síður að KR vantaði leikmann í ljósi meiðsla hjá liðinu.
,,Þetta var hörkuleikur og ég átti von á erfiðum leik í Kennó en var frekar hissa á því að við skyldum stinga þá svona af, þetta var engu að síður hörkuleikur,“ sagði Páll en prísar hann sig ekki sælan með leikmann eins og Inge innan sinna raða?
 
,,Inge er mjög öflugur varnarmaður einn á einn og stoppaði t.d. Jefferson hjá ÍR alveg í fyrri hálfleik og góðan hluta af seinni hálfleik svo Inge stóð sig mjög vel. Hann hefur reyndar verið umdeildur undanfarið því hann getur ekki skotið eins og menn vilja í íslensku deildinni. Inge er samt að standa sig vel og stýrir nú liðinu betur heldur en hann gerði fyrir jól,“ sagði Páll sem telfdi fram Darra Hilmarssyni í gær sem ekki var kominn í 100% stand og þá var Finnur Magnússon á beknum en óvitað er hve lengi hann verður frá.
 
,,Við erum í meiðslum og vitum ekki hvenær Finnur kemur til baka svo við erum að skoða því okkur vantar mann en það kemur í ljós í næstu viku svo það er mjög líklegt að við bætum við okkur manni,“ sagði Páll Kolbeinsson þjálfari KR í samtali við Karfan.is.
 
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski: Páll í viðtali við Karfan.is eftir viðureign ÍR og KR í Kennó í gær.
 
Fréttir
- Auglýsing -