spot_img
HomeFréttirUndir 14 ára drengir unnu til bronsverðlauna á Copenhagen Invitational

Undir 14 ára drengir unnu til bronsverðlauna á Copenhagen Invitational

Á dögunum héldu 10 vaskir íslenskir körfuboltadrengir til Kaupmannahafnar þar sem Copenhagen Invitational mótið fór fram dagana 17.-19. júní. Þjálfari 8. fl. Stjörnunnar dr. (U14), Leifur Steinn Árnason, valdi drengina tíu en á mótinu er keppt í U14 og U15 flokkum. Fimm þeirra komu frá Stjörnunni, þeir Dagur Snorri Þórsson, Jakob Kári Leifsson, Marinó Gregers Oddgeirsson, Pétur Harðarson og Viktor Máni Ólafsson. Í liðinu voru einnig þeir Hannes Gunnlaugsson úr ÍR, Jón Árni Gylfason úr Skallagrími, Lárus Grétar Ólafsson úr KR, Patrik Joe Birmingham úr Njarðvík og Sturla Böðvarsson úr Snæfelli. Strákarnir hafa margsinnis mæst á körfuboltavellinum með liðum sínum en nú var tími til að snúa bökum saman og máta sig gegn sterkum liðum sem komu víða að úr Evrópu.


Leikið var í tveimur fjögurra liða riðlum þar sem efstu tvö liðin í riðlunum kepptu svo um 1.-4. sætið og neðri tvö í keppni um 5.-8. Á föstudagsmorgninum mættu piltarnir hollenska liðinu BS Leiden. Hollendingarnir réðu illa við hraðan og óeigingjarnan leik íslenska liðsins sem vann öruggan 90-57 sigur. Síðdegisleikurinn var svo gegn nýkrýndu Scania-Cup meisturunum í danska liðinu SISU. Helmingur íslenska liðsins þekkti vel til SISU en Stjarnan mætti þeim í undanúrslitum Scania-Cup um páskana og vissu að þarna var á ferðinni hörkulið. SISU höfðu reyndar fyrr um daginn tapað sínum leik og því ekki um annað en sigur að ræða ef þeir ætluðu þeir sér að komast í undanúrslit. Eftir góða byrjun íslenska liðsins jafnaðist leikurinn smám saman og var hann í járnum fram undir miðjan lokaleikhluta. Eftir það var íslenska liðið sterkara og hafði að lokum 68-60 sigur og sæti í undanúrslitunum tryggt.


Á laugardagsmorgninum var leikið við lettneska liðið Gulbene sem einnig hafði unnið báða sína leiki. Lettarnir byrjuðu betur en íslenska liðið jafnaði þó leikinn og skiptust liðin nokkrum sinnum á forystu áður en Gulbene átti betri lokasprett og fór að lokum 70-65 fyrir Lettunum. Íslenska liðið náði öðru sæti í riðlinum og í undanúrslitaleiknum beið U14 landslið Slóvakíu. Slóvakarnir höfðu rúllað gegnum sinn riðil eins og vel smurð vél og unnið alla leikina örugglega. Stíf pressa Slóvakanna og góð skotnýting gaf þeim 17 stiga forskot eftir fyrsta leikhluta. Íslensku strákarnir sýndu miklu betri leik eftir það og var stigaskorið í þremur leikhlutunum eftir það nokkuð jafnt en svo fór þó að Slóvakar unnu 72-57. Lærdómsríkur dagur fyrir strákana sem þarna mættu tveimur virkilega góðum andstæðingum.


Á sunnudeginum var svo leikið um sæti á mótinu. Til úrslita léku Gulbene og Slóvakía. Okkar menn léku hins vegar um bronsverðlaun við sænska liðið Fryshuset sem er einn stærsti körfuboltaklúbburinn þar í landi og höfðu lent í 2. sæti á Scania-Cup um páskana. Íslenska liðið byrjaði leikinn af krafti, höfðu góð tök á sóknarleik Fryshuset og unnu á endanum glæsilegan 83-57 sigur og þriðja sætið því tryggt. Í úrslitaleiknum unnu Gulbene svo 56-48 sigur á Slóvökunum í spennandi leik.


Að úrslitaleiknum loknum var verðlaunaafhending og úrvalslið mótsins tilkynnt. Í liðinu voru Ricards Aizpurs (Gulbene) , Matiss Lacis (Gulbene), Bruno Randuska (Slóvakía), Malcom Price (Fryshuset) og Pétur Harðarson. Virkilega góður árangur hjá íslensku strákunum sem þarna voru nokkrir að kynnast því í fyrsta sinn að spila við erlenda mótherja.

Ísland skoraði mest allra liða á mótinu með 72,6 stig að meðaltali í leik. Röðun íslenskra leikmanna af 50 stigahæstu leikmönnum mótsins.

Nr 4 Pétur 82 stig
Nr 9 Patrik 55 stig
Nr 10 Lárus 55 stig
Nr 15 Jakob 44 stig
Nr 16 Sturla 42 stig
Nr 36 Hannes 26 stig
Nr 39 Jón Árni 23 stig
Nr 41 Viktor 22 stig

Myndasafn (Hörður Garðarsson)

Tölfræði mótsins


Fréttir
- Auglýsing -