Það má segja að Keflavíkurstúlkur hafi verið þó nokkuð hungraðari í það að komast í Höllina í dag þegar þær tóku á móti Hamar í 8 liða úrslitum Subwaybikarsins. En það var elja og dugnaður allra leikmanna sem skóp sigur gegn sterku liði Hamars 86-72.
Keflavík sýndu strax á fyrstu mínútu að þær voru svo sannarlega tilbúnar í leikinn og ætluðu sér ekkert annað en sigur. Staðan eftir 8 mínútna leik var 23-3 og gestirnir vissu varla hvað snéri upp né niður. Í öðrum leikhluta vöknuðu loks gestirnir til lífsins sóknarlega séð í það minnsta. En Ágúst þjálfari Hamars hélt áfram í svæðisvörn sinni sem var að skila Keflavík auðveldum þriggjastiga skotum sem þær nýttu sér til fulls. Helst má þar nefna Kristi Smith sem var komin með 18 stig í fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik var 37-24 heimastúlkur í vil.
Það var ekki fyrr en í þriðja leikhluta að Hamarsstúlkur skipta yfir í maður á mann vörn sem að leikurinn fór að snúast þeim í vil. Keflavíkurliðið lenti í mesta basli í sókninni og á þessum tíma virtist Julia Demirer getað skorað hreinlega að vild. Hamar liðið saxaði jafnt og þétt á forystu heimastúlkna og komu muninum niður í 5 stig.
En þá virtist sóknarleikur Keflavíkur aftur hrökkva í gang og ná að skora 8 stig án þess að Hamarsstúlkur ná að svara fyrir sig og munurinn aftur komin í þrettán stig. Bryndís Guðmundsdóttir var á þessum tímapunkti komin með 4 villur og gat lítið beytt sér í vörninni. Þrátt fyrir þetta þá náðu Keflvíkur stúlkur að halda fengnum hlut og á síðustu mínútunum spiluðu þær skynsamlega og kláruðu dæmið.
Hjá Keflavík var Kristi Smith allt í öllu í fyrri hálfleik og við keflinu tók Bryndís Guðmundsdóttir í þeim seinni en Bryndís hirðir titilinn besti maður vallarins að þessu sinni með 23 stig, 10 fráköst og 7 stoðsendingar. Hjá Hamar var Julia Demirer að vanda með sína trölla tvennu, eða 21stig og 15 fráköst.
Viðtal á Karfan TV