spot_img
HomeFréttirKeflavíkurvörnin slátraði Njarðvíkingum!

Keflavíkurvörnin slátraði Njarðvíkingum!

 
Keflvíkingar eru komnir í undanúrslit Subwaybikarsins eftir að hafa kjöldregið erkifjendur sína úr Njarðvík í Toyotahöllinni í kvöld. Óhætt er að segja að um sigur bakvarðanna hafi verið að ræða en þeir Hörður Axel Vilhjálmsson, Gunnar Einarsson og Draelon Burns misþyrmdu Njarðvíkingum í heilar 40 mínútur. Lokatölur í Keflavík voru 93-73 heimamönnum í vil þar sem Draelon Burns gerði 29 stig, Gunnar Einarsson 23 og Hörður Axel 18.
Sé tekið mið af viðureignum Reykjanesbæjarliðanna síðustu ár þá ættu úrslit kvöldsins ekkert að koma á óvart enda skiptast liðin á því að kjöldraga hvert annað svo frá og með þessum degi verður ,,El Classico“ ekki lengur notað um rimmur þessara erkifjenda. Því miður hefur það verið raunin upp á síðkastið að annað liðið hefur ekki mætt til leiks, í deildinni voru það Keflvíkingar en nú í bikarnum létu Njarðvíkingar ekki sjá sig.
 
Hörður Axel Vilhjálmsson kom bakvarðasveit Keflavíkur á sporið með að stela boltanum og gera svo fyrstu stig leiksins en bakverðir Keflavíkur minntu einna helst á blóðhunda en nokkuð annað í kvöld. Það tók Njarðvíkinga tvær mínútur að komast á blað en það gerði Friðrik Erlendur Stefánsson af vítalínunni.
 
Sóknarleikur Njarðvíkinga var stirður í upphafi leiks enda pressuðu Keflvíkingar miskunnarlaust á bakverði Njarðvíkinga sem grýttu boltanum frá sér í gríð og erg. Í stöðunni 7-8 Njarðvíkingum í vil skyldu leiðir þegar Keflvíkingar tóku leikinn í sínar hendur. Fljótlega varð staðan 15-8 og lauk leikhlutanum í stöðunni 21-13 fyrir Keflavík og Njarðvíkingar máttu prísa sig sæla með að vera ekki lengra frá gestgjöfum sínum.
 
Hið sama var uppi á teningnum í upphafi annars leikhluta og eftir 12 mínútna leik höfðu Njarðvíkingar tapað 10 boltum. Draelon Burns jók svo muninn í 30-16 er hann skoraði og fékk villu að auki. Keflavíkurvörnin var hreint út sagt frábær og kanónur á borð við Nick Bradford, Magnús Þór Gunnarsson og Jóhann Árna Ólafsson voru algerlega úti á túni.
 
Þegar tæpar fjórar mínútur voru til hálfleiks kynti Hörður Axel enn betur undir Keflvíkingum þegar hann stal boltanum, brunaði upp völlinn og tróð með tilþrifum og staðan 35-20 Keflavík í vil. Á þessum kafla var einungis eitt lið á vellinum, Keflavík, sem gerði 15 stig í röð án þess að Njarðvíkingar næðu að svara og breyttu stöðunni í 45-20 og stóðu leikar svo 51-30 í hálfleik.
 
Draelon Burns var kominn með 17 stig í liði Keflavíkur í hálfleik en hjá andlausum Njarðvíkingum var Guðmundur Jónsson með 7 stig.
 
Hörður Axel Vilhjálmsson minnti á strax í upphafi síðari hálfleiks að Keflvíkingar ætluðu sér ekkert að gefa eftir því hann stal boltanum og tróð og heljartak Keflavíkur þéttist ennfrekar. Snemma í þriðja leikhluta fékk Sigurður Þorsteinsson sína fjórðu villu og ekki var þess lengi að bíða að bæði hann og Jón N. Hafsteinsson fengju sína fimmtu villu í liði Keflavíkur en það skipti engu máli, bakverðir Keflavíkur voru með algera stjórn á atburðarás kvöldsins.
 
Staðan að loknum þriðja leikhluta var 72-54 Keflavík í vil og vann Njarðvík leikhlutann 21-24 en Keflvíkingar voru einfaldlega komnir of langt frá. Þegar þrjár mínútur voru svo liðnar af fjórða leikhluta var smá ljóstýra í gangi hjá Njarðvíkingum og staðan 74-60 fyrir Keflavík þegar Jóhann Árni Ólafsson fékk sína fimmtu villu í liði Njarðvíkur, mótmælti dómnum og uppskar tæknivillu fyrir vikið. Þar með var öll nótt úti og Keflvíkingar komu muninum aftur upp í 20 stig og luku leik með 93-73 sigri.
 
Allir sem vettlingi gátu valdið í Keflavíkurliðinu í kvöld skiluðu sínu af stakri prýði en það er óvanalegt að sjá jafn þéttskipað lið og Njarðvík fá nákvæmlega ekkert út úr sínum sterkustu leikmönnum. Það er kannski besta leiðin til að lýsa glæsilegri Keflavíkurvörn sem sló Njarðvíkinga algerlega út af laginu og kom nágrönnum sínum aðeins niður á jörðina sem hafa fengið gefins, í mæltu máli, alla þá titla sem framundan eru (voru).
 
Svo einhver dæmi séu tekin var Magnús Þór Gunnarsson með verstu þriggja stiga nýtinguna sína í vetur en hann hitti aðeins úr 1 af 11 skotum sínum og það á sínum gamla heimavelli í Keflavík. Njarðvíkingar voru aðeins með 14,2% þriggja stiga nýtingu í hálfleik, 31,2% tveggja stiga nýtingu og skoruðu 15 af 30 stigum sínum af vítalínunni í fyrri hálfleik. Nokkuð úldið veganesti inni í síðari hálfleikinn gegn einbeittu og baráttuglöðu liði Keflavíkur.
 
Taka skal sérstaklega fram að Hörður Axel Vilhjálmsson að öðrum ólöstuðum var langbesti maður vallarins í kvöld. Hörður lék fáséða vörn í íslenska boltanum og blés vart úr nös eftir þær 33 mínútur sem hann hamaðist í Njarðvíkingum á báðum endum vallarins. Hörður Axel gerði 18 stig í leiknum, stal 6 boltum, tók 8 fráköst og gaf 2 stoðsendingar. Draelon Burns var stigahæstur með 29 stig og 9 fráköst og Gunnar Einarsson gerði 23 stig ásamt því að taka 6 fráköst.
 
Hjá Njarðvík lauk Nick Bradford leik með 16 stig og 14 fráköst og næstur honum kom Hjörtur Hrafn Einarsson með 11 stig. Aðrir leikmenn liðsins hefðu allt eins getað greitt aðgang enda voru þeir bara áhorfendur.
 
Njarðvíkingar gerðu 73 stig í leiknum og jöfnuðu þar með stigalægsta leik sinn í vetur en þeir gerðu 73 stig í sigri gegn Fjölni í deildinni.
 
Byrjunarliðin:
Keflavík: Sigurður Þorsteinsson, Hörður Axel Vilhjálmsson, Draelon Burns, Elentínus Margeirsson og Gunnar Einarsson.
Njarðvík: Jóhann Árni Ólafsson, Magnús Þór Gunnarsson, Nick Bradford, Friðrik Stefánsson og Guðmundur Jónsson.
 
Dómarar leiksins:
Björgvin Rúnarsson og Eggert Þór Aðalsteinsson: Flautuðu alltof mikið í kvöld enda voru tekin 94 vítaskot í leiknum! Flautukonsertinn setti því miður svip sinn á leikinn en dómararnir voru þó í mun betra formi en Njarðvíkingar.
 
Viðtöl frá leiknum koma inn á morgun.
 
Ljósmynd/ Hörður Axel lék eins og herforingi í Keflavíkurliðinu í kvöld.
 
Fréttir
- Auglýsing -