spot_img
HomeFréttirEmil reið baggamuninn í Ásgarði

Emil reið baggamuninn í Ásgarði

Snæfell komst í kvöld upp í 4. sæti Iceland Express deildarinnar með 87-93 sigri á Stjörnunni í Ásgarði. Liðin eru jöfn að stigum en Stjarnan vann Snæfell með eins stigs mun í Hólminum fyrr á leiktíðinni svo sex stiga sigur Snæfells skilaði þeim innbyrðisviðureigninni. Sean Burton var stigahæstur gestanna með 22 stig en Emil Jóhannsson var maður leiksins með 21 stig og 6 fráköst en hann sýndi stáltaugar á lokasprettinum. Justin Shouse var stigahæstur í liði Stjörnunnar í kvöld með 22 stig.
Heimamenn byrjuðu vel og komust í 7-0 eftir þriggja stiga körfu frá Magnúsi Helgasyni en Hólmarar gerðu ekki sín fyrstu stig fyrr en tæpar fjórar mínútur voru liðnar af leiknum og þar var Hlynur Bæringsson að verki. Kjartan Atli Kjartansson breytti stöðunni í 15-9 með tveimur þriggja stiga körfum í röð og heimamenn leiddu 23-21 eftir fyrsta leikhluta. Sean Burton virtist ætla að vera með læti fyrir utan þriggja stiga línuna í kvöld en hann setti þrjá þrista í fyrsta leikhluta.
 
Heimamenn voru skrefinu á undan framan af leik en þegar um þrjár og hálf mínúta voru til hálfleiks jafnaði Emil Þór leikinn í 36-36 og gestirnir leiddu svo 43-46 í hálfleik eftir snarpan og skemmtilegan fyrri hálfleik.
 
Liðin skiptust á forystunni í þriðja leikhluta en þegar líða tók á leikhlutann sigu heimamenn fram úr. Stjarnan gerði 10 stig án þess að Snæfell næði að svara. Páll Fannar Helgason rauf svo þögnina með þrist þegar 47 sekúndur voru eftir af leikhlutanum en Kjartan Atli svaraði fyrir heimamenn þegar 4 sekúndur voru eftir og staðan 70-63 fyrir Stjörnuna og lokaspretturinn framundan.
 
Undir lok þriðja leikhluta höfðu Snæfellingar skipt yfir í svæðisvörn, varnarafbrigði sem byssum á borð við Justin, Jovan og Kjartan ætti ekki að leiðast. Svæðisvörn gestanna var enn við lýði í fjórða leikhluta en heimamenn áttu bágt með að leysa hana enda gerðu þeir aðeins 9 stig fyrstu 9 mínútur leikhlutans!
 
Emil Þór jafnaði leikinn fyrir Snæfell í 76-76 af vítalínunni og kom sínum mönnum svo í 79-84 með góðu gegnumbroti. Jovan Zdravevski svaraði með þriggja stiga körfu og staðan 82-84. Strax í næstu sókn valsaði Sigurður Þorvaldsson í gegnum Stjörnuvörnina og jók muninn í fjögur stig og heimamenn auðsjánlega svekktir að hafa sofið þarna á verðinum.
 
Þegar 8 sekúndur voru til leiksloka skoraði Justin Shouse lygilegan þrist og minnkaði muninn í 87-89. Stjörnumenn brutu strax eftir innkast Snæfells en það var þeirra ólán að Sean Burton var með boltann, maðurinn sem á heiðurinn að bestu vítanýtingu deildarinnar. Burton brást ekki bogalistin og jók muninn í 87-91. Lokatölur urðu svo 87-93 eins og fyrr greinir.
 
Emil Þór Jóhannsson fór mikinn í liði Snæfells og Hlynur Bæringsson lét ekki sitt eftir liggja með 19 stig og 13 fráköst. Emil gerði 21 stig í leiknum og tók 6 fráköst en stigahæstur var Sean Burton með 22 stig og 6 stoðsendingar en hann setti niður 4 af 14 þriggja stiga skotum sínum í leiknum, var fínn í fyrri hálfleik en skotin vildu ekki niður hjá honum í þeim síðari.
 
Justin Shouse hefur oft látið betur að sér kveða en í kvöld en var engu að síður með 22 stig og 10 stoðsendingar. Jovan Zdravevski var nokkuð lengi í gang en lauk leik með 20 stig og 10 fráköst. Stjörnumenn mega þó enn glíma við meiðslavesenið þar sem Birkir Guðlaugsson var fjarri góðu gamni með tognaðan ökkla en Guðjón Hrafn Lárusson lék sinn fyrsta leik í vetur eftir langvarandi meiðsli og kom sterkur inn með 9 stig og 7 fráköst og á vísast eftir að reynast Garðbæingum vel.
 
Dómarar leiksins:
Sigmundur Már Herbertsson og Jón Guðmundsson: Höfðu góð tök á leiknum, vel dæmdur leikur.
 
Ljósmynd/ Emil Þór Jóhannsson, besti maður leiksins, sækir að körfu Stjörnunnar.
 
Fréttir
- Auglýsing -