Keflvíkingar eru komnir upp í 3. sæti Iceland Express deildarinnar eftir öruggan 84-103 útisigur gegn Fjölni í kvöld. Keflvíkingar eru í fantaformi um þessar mundir og hafa unnið fjóra leiki í röð í deildinni.
Gunnar Einarsson var atkvæðamestur í liði Keflavíkur með 25 stig en þrír leikmenn komu honum næstir með 17 stig, það voru þeir Draelon Burns, Þröstur Jóhannsson og Hörður Axel Vilhjálmsson, sem gerði einmitt garðinn fyrst frægan með Fjölni enda uppalinn í Grafarvogi.
Hjá heimamönnum var Christopher Smith samur við sig í tvennumálum með 27 stig og 16 fráköst og Tómas Heiðar Tómasson gerði 19 stig.