spot_img
HomeFréttirSamkaupsmótið kveður – Nettómótið tekur við

Samkaupsmótið kveður – Nettómótið tekur við

Stærsta og veglegasta körfuboltamót sem haldið er á Íslandi ár hvert fyrir börn, Samkaupsmótið, mun í ár skipta um nafn og kallast Nettómótið. Þó að í raun sé um sama bakhjarl að ræða og áður þá ræður sú staðreynd för að Nettó verslanir Samkaupa eru orðnar helstu flaggskip fyrirtækisins.
 
KarfaN sem er sameiginlegt hagsmunafélag barna- og unglingaráða Körfuknattleiksdeilda Keflavíkur og Njarðvíkur er þessa dagana á fullu í undirbúningi Nettómótsins 2010 sem verður jafnframt 20. ára afmælismót og verður haldið helgina 6-7. mars í Reykjanesbæ.
 
 
Það er gott til þess að vita að svarnir andstæðingar á vellinum geti tekið sig saman með þessum hætti og haldið glæsilegt körfuboltamót fyrir krakka á Íslandi, 11 ára og yngri.
 
Það er samt ekki bara leikinn körfubolti á Nettómótinu þó hann sé vissulega útgangspunktur og hornsteinn mótsins, heldur er um að ræða heildræna fjölskylduhátíð þar sem allir eru sigurvegarar. Þetta er ævintýrahelgi þar sem margir spennandi hlutir gerast. Krakkarnir gista saman og borða morgun- hádegis- og kvöldverð, fara í pizzuveislu, bíó, sund, kvöldvöku, fá gjafir og kíkja við í stanslaust fjör í Reykjaneshöllinni, þar sem m.a. má reyna sig í lengsta hoppukastala landsins. Ef þau hafa tíma og þor geta þau líka heimsótt Skessuna í hellinum sem býr við smábátahöfnina í Grófinni.
 
Orðspor mótsins hefur vaxið jafnt og þétt á á þessum tuttugu árum. Á mótið 2009 mættu 836 þátttakendur til leiks og mynduðu 131 keppnislið. Leiknir voru 313 leikir á 13 völlum í sex íþróttahúsum. Á fimmta hundrað sjálfboðaliðar koma að framkvæmd mótsins og þrátt fyrir allan þennan fjölda ungmennafélagsmanna væri svona framkvæmd ekki gerleg, ef ekki kæmi til dýrmætur stuðningur bæjarfélagsins okkar, sem með stuðningi sínum við slíkt verkefni undirstrikar að Reykjanesbær er ÍÞRÓTTABÆR.
 
Upplýsingar um skráningar á mótið munu fara í loftið í byrjun febrúar og er stefnt að því að allar körfuknattleiksdeildir landsins hafi fengið kynningarbækling mótsins í hendurnar ekki seinna en 9. febrúar. Líkt og áður leitast skipuleggendur mótsins við að hafa umgjörðina sem glæsilegasta um leið og við treystum okkur til að fullyrða að þátttökugjald mótsins verði eitt það lægsta á landinu fyrir mót af þessum toga.
 
 
Með Körfuboltakveðju
 
Barna- og unglingaráð Kkd. Keflavíkur og Njarðvíkur
 
Fréttatilkynning
Fréttir
- Auglýsing -