Íslandsmeistarar KR eru komnir á topp Iceland Express deildar karla en Vesturbæingar kjöldrógu Tindastól í DHL-Höllinni í kvöld. Lokatölur voru 106-71 KR í vil þar sem sjö leikmenn KR liðsins gerðu 10 stig eða meira. Þeirra atkvæðamestur var Brynjar Þór Björnsson með 19 stig. KR hefur nú 24 stig á toppi deildarinnar þar sem Njarðvíkingar lágu gegn Grindavík í Ljónagryfjunni.
Semaj Inge gerði fyrstu stig leiksins úr þriggja stiga skoti en Tindastólsmenn komust í 3-4. Heimamenn gerðu næstu 11 stig í röð og komust í 14-4 þegar Skarphéðinn Ingason gaf glæsilega ,,alley up“ stoðsendingu á Semaj Inge sem vitaskuld tróð með tilþrifum. Tindastólsmenn tóku leikhlé sem hafði lítil áhrif því þeir voru algerlega heillum horfnir í varnarleik sínum.
Stólarnir reyndu að skipta yfir í svæðisvörn en þá minnti Tommy Johnson á sig með þriggja stiga körfu og staðan 24-10 fyrir KR og lauk leikhlutanum svo í stöðunni 36-14 með þriggja stiga flautukörfu frá Brynjari Þór, ekki bar á öðru en að Stólarnir hefðu kastað inn handklæðinu á þessum tímapunkti.
Michael Giovacchini lék 7 fyrstu mínútur leiksins og sást ekki meira eftir það, ósagt skal látið hvort leikmaðurinn sé að glíma við meiðsli eða hvort þjálfari Tindastóls, Karl Jónsson, hafi verið að beita refsiaðgerðum.
Eftir ótrúlega dapran upphafsleikhluta bjuggust eflaust margir við því að Tindastólsmenn myndu sækja í sig veðrið en annað kom á daginn. Kenny Boyd átti ekki roð í miðherja KR sem voru vel stemmdir og þá sér í lagi Fannar Ólafsson sem komst trekk í trekk fram hjá Boyd. Brynjar Þór jók svo muninn í 30 stig er hann setti niður tvö víti og staðan 56-26 en liðin gengu til hálfleiks í stöðunni 60-30.
Fannar Ólafsson var stigahæstur í hálfleik hjá KR með 14 stig en fjórir leikmenn liðsins höfðu þegar skorað 10 stig eða meira í hálfleik. Hjá Tindastól var Helgi Margeirsson með 12 stig.
Lítt gekk að finna körfuna í upphafi síðari hálfleiks en Semaj Inge gerði fyrstu stig KR eftir þriggja mínútna leik í síðari hálfleik. Tindastólsmenn voru litlu betri í síðari hálfleik en í þeim fyrri, það voru í raun KR-ingar sem höfðu slakað á því KR marði leikhlutann 20-19 og staðan 80-49 fyrir lokasprettinn og einvörðungu spurning um hve stór sigurinn yrði að lokum.
Lokatölur reyndust vera 106-71 og KR orðnir einir í toppsæti deildarinnar. Þó Brynjar Þór hafi verið stigahæstur í liði heimamann þá lék KR-liðið vel sem ein heild enda sjö leikmenn sem gerðu 10 stig eða meira í leiknum. Kristófer Acox lék í rúmar 12 mínútur í leiknum og þakkaði fyrir sig með tveimur glæsilegum troðslum (8 stig, 2 fráköst, 2 stolnir boltar og 1 varið skot). Semaj Inge var með 17 stig og 6 fráköst og þá átti Skarphéðinn Freyr Ingason fína spretti með 12 stig, 4 fráköst og 3 stolna bolta og í eitt skiptið er hann hnuplaði boltanum brunaði hann upp og tróð að hætti hússins. Eftir leik var eins og Páll Kolbeinsson þjálfari KR væri eini maðurinn á skýrslu sem ætti eftir að troða í leiknum.
Kenny Boyd gerði 21 stig í liði Tindastóls en miðherjinn sá er ekki í formi og dugði skammt varnarlega gegn miðherjum KR. Svavar Atli Birgisson kom honum næstur með 17 stig. Tindastólsliðið sem mætti í Vesturbæinn í kvöld var fjarri því sama lið og mætti í Ásgarð fyrr á leiktíðinni og lagði Stjörnuna að velli. Það var auðséð frá upphafi leiks að leikmenn liðsins höfðu ekki trú á verkefninu og áttu engar byrgðir á lager til að tefla fram gegn KR. Stólarnir eru því áfram í 9. sæti deildarinnar með 8 stig og hafa tapað þremur deildarleikjum í röð og fjórum útileikjum í röð.
KR hefur hinsvegar unnið fimm deildarleiki í röð og tróna á toppi deildarinnar og mæta Grindavík á útivelli í næstu umferð.
Dómarar leiksins: Björgvin Rúnarsson og Jón Þór Eyþórsson. Fengu ekki mikla áskorun í einsleitum leik í kvöld. Fín dómgæsla.