Í dag eru 49 ár síðan KKÍ var stofnað. Stofnfundurinn var haldinn sunnudaginn 29. janúar 1961 að Grundarstíg 2a í Reykjavík. Stofnaðilar voru Körfuknattleiksráð Reykjavíkur, Íþróttabandalag Suðurnesja, Íþróttabandalag Hafnarfjarðar, Íþróttabandalag Keflavíkur, Íþróttbandalag Akureyrar og Íþróttabandalag Vestmannaeyja.
Fyrsti formaður KKÍ var kjörinn Bogi Þorsteinsson. Nefnd var kjörin á þinginu sem gerði tillögu um Boga sem formann og að Ingi Þorsteinsson, Benedikt Jakobsson, Matthías Matthíasson og Magnús Björnsson yrðu í stjórn. Ingi baðst undan kjöri. Var þá stungið upp á Kristni V. Jóhannssyni í hans stað og voru þeir kjörnir. Uppstillinganefndin var skipuð Inga Gunnarssyni, Birgi Hermannssyni og Þór Hagalín.
Á næsta ári verður KKÍ því 50 ára sem verður án efa viðburðarríkt og mun sérstök afmælisnefnd koma að því að halda upp á afmælið á því ári.
Karfan.is óskar Körfuknattleikssambandi Íslands innilega til hamingju með daginn.