Einn leikur er á dagskránni í Subwaybikar kvenna í kvöld þegar 1. deildarlið Fjölnis tekur á móti Iceland Express deildarliði Keflavíkur í Dalhúsum í Grafarvogi kl. 19:15. Leikurinn er í undanúrslitum keppninnar en það lið sem fer með sigur af hólmi mætir annað hvort Njarðvík eða Haukum í Laugardalshöll í slag um bikartitilinn sjálfann.
Fjölniskonur eru ósigraðar í 1. deild kvenna en fyrirfram eru Keflvíkingar mun sigurstranglegri enda hefur liðið nýverið lagt Hamar að velli í bikarnum og þá höfðu Keflvíkingar betur gegn KR í síðustu umferð Iceland Express deildarinnar og urðu þar með fyrstar til að færa KR ósigur í deildinni. Fjölniskvenna bíður því ærinn starfi en allt getur gerst í bikarnum svo við skulum spyrja að leikslokum.
Á Akranesi mætast nýliðar ÍA og botnlið Hrunamanna í 1. deild karla kl. 19:15 og kl. 20:00 mætast nýliðar Stjörnunnar í 1. deild kvenna og Skallagrímur í Ásgarði í Garðabæ.
Þá er einn leikur á dagskrá í 2. deild karla þegar ÍBV tekur á móti Árborg kl. 20:00 í Vestmannaeyjum.