KR stúlkur lönduðu í gærkvöld sigri 75-79 gegn Hamarsstúlkum í Hveragerði í jöfnum og bráðfjörugum leik í Iceland Express deild kvenna þar sem úrslitin réðust ekki fyrr en í blálokin.
Leikurinn fór fjörlega af stað og skiptust liðin á körfum fyrstu mínúturnar. Þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir af fyrsta fjórðung leiddu gestirnir 10-12, en þá skoruðu Fanney og Sigrún sitthvorn þristinn fyrir heimastúlkur á meðan skotin voru ekki að rata rétta leið hjá KR þannig að Benedikt ákvað að taka leikhlé til að skerpa á sínum stelpum í stöðunni 16-12. Hamarsstelpur héldu þá áfram að finna glufur á KR vörninni og bættu stöðuna í 20-14, en Hildur náði að laga stöðuna áður en fyrsti fjórðungur kláraðist með góðu sniðskoti auk þess sem hún fiskaði villu í skotinu og nældi sér í aukastigið, staðan 20-17 eftir fyrsta fjórðung og hvorugt liðið að eiga sinn besta dag.
Kristrún Sigurjóns byrjaði 2. leikhlutann með því að auka muninn fyrir Hamar 22-17 en Gróa svaraði að bragði með stuttum jumper og Jenny setti niður stóran þrist og nældi sér í vítaskot að auki og náði hún að minnka muninn í 24-23. KR jafnaði síðan 26-26 og var þá ákveðið að blása til stuttrar þriggjastiga keppni, þar sem Koren Schram reið á vaðið og negldi niður þrist, en Jenny svaraði að bragði og setti þrist í næstu sókn, Koren setti þá annan þrist í sókninni á eftir sem Jenny svaraði strax með galopnum þrist hinumegin. Þá var komið að Sigrúnu Ámundadóttir að spreyta sig fyrir utan þriggjastiga línuna en hennar skot geigaði. KR stilltu þá upp í sína sókn sem endaði með þriggjastiga skoti frá Jenny Pfeiffer sem rataði rétta leið, og því voru gestirnir komnir með forystu 32-35 og bættu nokkuð í sarpinn og staðan 35-42 þegar tvær mínútur voru eftir af fyrri hálfleiknum. Stelpurnar hans Ágústs Björgvinssonar dóu þó ekki ráðalausar og skoruðu sex síðustu stigin í fyrri hálfleiknum og staðan 41-42 í leikhléi.
Í þriðja leikhlutanum hélst jafnfræðið með liðunum og var munurinn mest sex stig 53-47 fyrir heimastúlkur um miðjan fjórðunginn, en að mestu leyti var hann í járnum. Til að byrja með gekk varnaleikurinn þó brösulega hjá Hamri sem sést best á því að KR var komið með skotrétt eftir rétt um þriggja mínútna leik og fengu 16 vítaskot í fjórðungnum og nýttu þær 11 þeirra, á meðan vítanýtingin hjá heimastúlkum var 8 af 9 í sama fjórðung, en staðan 62-63 þegar þriðji leikhluti kláraðist og greinilegt að brugðið gæti til beggja vona.
KR stelpurnar byrjuðu fjórða leikhlutann af miklu kappi og baráttan í vörninni var svakaleg, en sú barátta átti ekki upp á pallborðið hjá dómaradúett kvöldsins sem verðlaunaði þær með þremur villum á fyrstu mínútu 4. leikhluta við litla kátínu Benedikts sem heimtaði að svona barátta væri verðlaunuð almennilega en ætti ekki að kalla á villu. Stigaskorið var í rólegri kantinum en staðan var jöfn 67-67 og síðan 70-70 þegar fjórði leikhluti var hálfnaður, en nokkuð var um tapaða bolta og léleg skot í þessum fjórðung.
Þegar rúmlega ein og hálf mínúta var eftir af leiknum skellti Signý Hermannsdóttir niður þýðingarmiklum þrist þar sem hún fékk boltann ein á auðum sjó fyrir utan þriggjastiga línuna og kom gestunum yfir 73-75. Þá tók við atburðarás þar sem bæði lið gerðu stór mistök. Í næstu sókn átti Koren lélega sendingu sem hafnaði utan vallar en Kristrún stal boltanum af Signý undir körfu Hamarskvenna og heimastúlkur geystust í sókn þar sem Koren reyndi nokkuð erfiðan þrist sem klikkaði. Ágúst kallaði þá inn skipanir um pressuvörn sem leiddi af sér að Kristrún stal boltanum af Hildi og náði að klára sniðskot og jafna leikinn 75-75 þegar um 45 sekúndur voru eftir af leiknum. KR stelpurnar stilla upp í sókn, en Koren nær að komast inn í sendingu frá Hildi og gestgjafarnir skyndilega komnir í ökumannssætið þar sem staðan var jöfn og tæplega 30 sekúndur eftir af leiknum og því þyrfti að taka langa sókn sem myndi enda með körfu og standa svo vörnina þær sárafáu sekúndur sem eftir væru.
Adam var þó ekki lengi í paradís þar sem Margrét Kara kom aðvífandi aftan að Koren og stal af henni boltanum örfáum andartökum síðar og kom boltanum á Jenny áður en heimastúlkur næðu að brjóta. Jenny fór á línuna og setti bæði vítin ofan í og staðan 75-77 og 20 sekúndur eftir. Þá fékk Koren tækifæri til að hefna fyrir tapaða boltann í sókninni á undan og keyrði á körfuna, en þar hljóp hún beint í fangið á Signý sem stóð vaktina vel og Margrét Kara náði sóknarfrákasti og það voru aðeins 6 sekúndur eftir þegar Sigrún náði að brjóta á Jenny sem þá var komin með boltann, en Jenny var öryggið uppmálað á vítalínunni og setti bæði skotin ofan í. Ágúst tók þá leikhlé og ætlaði að freista þess að töfra fram 4 stig á 6 sekúndum, en Koren keyrði þá aftur í fangið á Signý sem varði skotið frá henni og þar með rann leiktíminn út og Vesturbæingar lönduðu 2 dýrmætum stigum í baráttunni um deildarmeistaratitilinn. Lokatölur 75-79 fyrir KR.
Hjá Hamri var Koren Schram stigahæst með 19 stig, Kristrún skoraði 18 stig og Julia Demirer skoraði 13 stig og tók 8 fráköst. Sigrún skoraði 23 stig, tók 7 fráköst og stal 4 boltum.
Hjá gestunum var Jenny með 22 stig, Signý með tröllatvennuna sína sem innihélt 19 stig og 16 fráköst auk 3 stolinna bolta. Hildur skoraði 16 stig, Gróa skoraði 12 stig og tók 8 fráköst og Margrét Kara skoraði 6 stig, tók 8 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.
Texti: Sævar Logi Ólafsson