Snæfell hefur bætt við sig leikmanni fyrir lokasprettinn í Iceland Express deild karla en sá heitir Martins Berkis og er tveggja metra leikmaður sem kemur frá liði í Lettlandi. Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells sagði í samtali við Karfan.is að Berkis kæmi inn fyrir Pálma Frey Sigurgeirsson sem verður ekki meira með Hólmurum þetta tímabilið sökum meiðsla.
,,Hann kemur á morgun, laugardag, og við stefnum að því að hafa hann í búning á sunnudag gegn Keflavík í bikarnum en hann mun ekki gera neina galdra. Berkis veit lítið um okkur og við takmarkað um hann annað en að hann er alhliða leikmaður sem spilar stöður 2 og 3 en getur líka spilað í stöðum 1 og 4,“ sagði Ingi.
,,Berkis kemur inn fyrir Pálma sem var tvistur en tók upp boltann áður en Sean Burton kom til liðs við okkur. Þetta mátti ekki seinna vera því það var bara í þessari viku sem við fengum staðfest að Pálmi yrði ekki meira með í vetur. Okkur buðust nokkrir menn og það var samtaða hér í Hólminum um það að bæta við okkur leikmanni,“ sagði Ingi en hvort hann henti Snæfell og boltanum sem leikinn er hérlendis á eftir að koma í ljós. ,,Burton byrjaði ekki beint glæsilega hjá okkur en hefur heldur betur vaxið hérna,“ sagði Ingi og eru það orð að sönnu.
Eins og fyrr segir mun Berkis að öllum líkindum verða í búning þegar Keflavík tekur á móti Snæfell á sunnudag í undanúrslitum Subwaybikars karla.