Í dag mætast Keflavík og Snæfell í undanúrslitum karla í Subwaybikarkeppninni. Leikurinn hefst kl. 15:00 í Toyota-höllinni í Reykjanesbæ og verður hann í beinni útsendingu hjá RÚV. Liðin mættust fyrr í vikunni í Iceland Express deildinni þar sem Snæfell fór með öruggan sigur af hólmi í Stykkishólmi.
Síðan liðin mættust í vikunni hafa bæði lið bætt við sig erlendum leikmönnum og verður fróðlegt að sjá hvort og hvernig þeir láti til sín taka á parketinu í dag.
Í Iceland Express deildinni mætast svo Breiðablik og Tindastóll kl. 19:15 í Smáranum í Kópavogi en bæði lið nældu sér í 2 stig í síðustu umferð. Cedric Isom sallaði niður 41 stigi í sínum fyrsta leik fyrir Tindastól er Stólarnir lögðu Hamar á heimavelli og Blikar náðu í útisigur gegn ÍR.
Þá verður toppslagur í 1. deild karla þegar KFÍ tekur á móti Val á Ísafirði en takist Valsmönnum að landa sigri ná þeir að jafna KFÍ á toppi deildarinnar eða þá að KFÍ getur aukið forskot sitt í deildinni um 4 stig.