Njarðvíkingar önduðu léttar þegar þeir loksins náðu sigri eftir 4 leikja taphrynu. Þeir lögðu Hamarsmenn sem komu í heimsókn til Njarðvíkur 103:94 í leik þar sem Njarðvíkingar virtust hafa í hendi sér en náðu aldrei að hrista Hamarsmenn almennilega af sér.
Njarðvíkingar sem höfðu tapað 4 síðustu leikjum sínum hófu leikinn af krafti og voru fljótlega komnir með forystuna. Hamar lék að venju svæðisvörn og voru Njarðvíkingar að láta boltann ganga vel manna á milli þangað til að opið færi gafst. Þessi spilamennska gaf þeim 11 stiga forystu eftir fyrsta fjórðung. Það voru hinsvegar Hamarsmenn sem voru seigir og náðu undir miðbik annars leikhluta að jafna í stöðunni 26:26. Vörn Njarðvíkingar sem hafði fram að þessu verið með fínu móti ef miðað er við síðustu leiki þeirra byrjaði að leka en Sigurður Ingimundarson þjálfari Njarðvíkinga tók leikhlé og skrúfaði eitthvað fyrir þennan leka. Njarðvíkingar áttu svo flott "run" undir lok hálfleiksins og leiddu með 11 stigum í hálfleik 51:40
Seinni hálfleikur hófst á þeim nótum að liðin skiptu stigunum bróðurlega á milli sín, þeas að ef annað liðið skoraði þá "fékk" hitt liðið líka að skora. Í raun gerðist lítið markvert í þessum fjórðung bæði lið að spila á svipuðu tempói fór svo að Hamarsmenn sigruðu fjórðunginn með þremur stigum og minnkuðu muninn niður í 8 stig fyrir loka átökin.
Hamar byrjuðu seinasta leikhlutann með látum og náðu að jafna leikinn 77:77 með einföldum og öguðum körfuknattleik. Leikhlutinn var jafn með eindæmum en það var Guðmundur Jónsson sem setti niður 2 mikilvæga þrista fyrir Njarðvík og höfðu heimamenn 89:84 forystu þegar 2 mínútur voru til leiksloka. Njarðvíkingar náðu að halda þessari forystu til loka leiks þrátt fyrir að gestirnir höfðu gert heiðarlega tilraun í að stela sigrinum.