ÍR og Keflavík mættust í kvöld í íþróttahúsi Kennaraháskólans í hörkuleik og var gífurlegt jafnræði með liðunum í fyrri hálfleik. Keflvíkingar tóku við sér í seinni hálfleik og höfðu á endanum sigur, 84-103 .
Fyrir leik var ljóst að sigur myndi skila miklu fyrir bæði lið en Keflavík er komið í baráttuna um efsta sæti deildarinnar á meðan ÍR er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppni.
ÍR-ingar byrjuðu af miklum krafti með Nemanja Sovic fremstan meðal jafningja. Heimamenn komust snemma í 7-1 og um miðjan leikhlutann leiddu þeir með átta stigum 15-7. Keflavík minnkaði muninn í fimm stig en þriggjastiga karfa frá Kristni Jónassyni kom ÍR aftur í átta stiga mun. Keflvíkingar vöknuðu af værum blundi og hrukku í gang og munaði einungis þremur stigum á liðunum eftir fyrsta leikhluta 26-23.
Keflavík skoraði þrjár fyrstu körfur annars leikhluta og komust yfir 26-28 en Michael Jefferson kom ÍR aftur yfir með þriggjastigaskoti. Gestirnir settu niður næstu körfur og keyrðu muninn upp í sex stig og var það mesti munur sem Keflavík hafði í fyrri hálfleik.
Leikurinn hélt áfram að vera jafn og spennandi og ljóst að ÍR-ingar ætluðu að selja sig dýrt. Munurinn varð aldrei meiri en nokkur stig. ÍR minnkaði muninn í eitt stig snemma í leikhlutanum og þá sögðu leikmenn Keflavíkur hingað og ekki lengra. Gestirnir tóku öll völd á vellinum og jafnt og þétt juku þeir muninn. Með góðum 2-11 spretti lögðu Keflvíkingar grunn að sigri sínum og þegar leikhlutanum var lokið var munurinn orðinn 10 stig, 59-69.
Keflavík fór á mikið flug í byrjun fjórða leikhluta og á fyrstu fimm mínútunum skoruðu þeir 15 stig gegn tveim frá ÍR og staðan orðin 61-84. Karfa númer tvö frá ÍR í fjórðungnum kom ekki fyrr en eftir rúmar fimm mínútur og sigurinn svo gott sem í höfn fyrir bláa. Heimamenn í ÍR bitu aðeins frá sér í seinni hluta leikhlutans en voru því miður ekki nógu fast og Keflavík hafði 19 stiga sigur, 84-103.
Keflavík er sem fyrr í öðru sæti deildarinnar eftir leiki kvöldsins en KR heldur toppsætinum eftir sigur í spennandi leik gegn Fjölni í DHL-höllinni.
Draelon Burns var ekki svo langt frá því að vera með þrennu í leiknum, fyrir Keflavík, en hann skoraði 25 stig, tók 12 fráköst og gaf 7 stoðsendingar. Hörður Vilhjálmsson gerði 20 stig og gaf 6 stoðsendingar og kempan Gunnar Einarsson var með 16 stig.
Hjá ÍR var Steinar Arason sjóðandi fyrir utan þriggjastiga línuna en hann setti niður 5 af 7 þriggjasigaskotum sínum og var með 27 stig í leiknum. Nemanja Sovic var með 19 stig og 15 fráköst og Kristinn Jónasson gerði 13 stig og tók 7 fráköst.
Myndir: Tomasz Kolodziejski