Keflavík sigraði Tindastól nokkuð auðveldlega í leik liðanna í kvöld. 106:73 var lokastaða kvöldsins í leik þar sem úrslit leiksins voru nánast ráðinn í hálfleik.
Leik þessum verður seint minnst sem einn af þeim skemmtilegri á fjölum Toyotahallarinnar. Það var aðeins í fyrsta leikhluta sem gestirnir voru að sýna fína takta og héldu ágætlega í við heimamenn. En strax í öðrum leikhluta þegar heimamenn keyrðu upp hraðann og hertu varnartök sín þá fór virkilega að halla undan fæti hjá gestunum.
Að sama skapi var varnarleikur gestanna komin á hælanna og opin skot voru á færibandi fyrir heimamenn sem nýttu þau vel. Í hálfleik voru 15 stig sem skildu liðin að og búast hefði mátt við meiri krafti í gestunum en undir lok fyrri hálfleiks. Þvert á móti voru það Keflvíkingar sem hófu leik strax í fimmta gír og hreinlega völtuðu yfir gesti sína með hraðaupphlaupum.
Það sem eftir lifði leiks gat Guðjón Skúlason leyft sér að nýta bekkinn sinn vel og var mínútum skipt nokkuð bróðurlega á mannskapinn ef undan eru taldir Draleon Burns og Hörður Axel. Hjá gestunum var Cedric Isom allt í öllu, kappin setti niður 30 stig og næstur honum var Donatas Visockis. Björgunarsveitarmenn á Suðurnesjum leita nú að Svavari Birgissyni sem var algerlega týndur í þessum leik og setti niður aðeins 3 stig og þau undir lok fjórða leikhluta.