Valur hefur samið við hina bandarísku Kiana Johnson um að leika með liðinu á komandi tímabili í Subway deild kvenna.
Kiana mun koma til Vals frá Ekvador, en áður hafði hún leikið með Val frá 2019 til 2021. Á þeim tíma landaði hún Íslandsmeistaratitil og tveimur deildarmeistaratitlum með félaginu. Á seinna tímabili sínu með Val skilaði hún 16 stigum, 7 fráköstum og 7 stoðsendingum að meðaltali í leik.
Tilkynning:
Kiönu Johnson þarf ekki að kynna fyrir Völsurum eða öðrum körfuboltaunnendum á Íslandi. Hún snýr aftur og leikur með Val keppnistímabilið 2022 til 2023. Kiana lék með liðinu í tvö tímabil á árunum 2019 til 2021 og vann liðið á þeim tíma Íslandsmeistaratitil og tvo deildarmeistaratitla en vegna Covid varð ekkert lið meistari árið 2020. Á síðara tímabili sínu með Val var Kiana með 15,8 stig, 6,6 fráköst, 7,1 stoðsendingar og 22,3 framlagspunkta að meðaltali í leik. Kiana tók sér stutt frí frá körfuboltanum á síðasta tímabili og gaf m.a. út bók. Hún hefur undanfarnar vikur spilað körfubolta í Ekvador.