Nú seinni partinn í dag er komið að stóru stundinni hjá Helenu Sverrisdóttur og liðsfélögum hennar í bandaríska háskólaliðinu TCU. Liðið er komið til Knoxville í Tennessee í Bandaríkjunum þar sem það leikur í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NCAA deildinni. TCU fékk boð um að leika í úrslitakeppninni og ræddu liðsmenn félagsins m.a. við fjölmiðla í gær um komandi leik gegn Dayton skólanum seinni partinn í dag.
Helena Sverrisdóttir var að sjálfsögðu spurð spjörunum úr og heimasíða TCU skólans tók saman það sem helstu leikmenn og þjálfari liðsins höfðu að segja fyrir leikinn. Hægt er að sjá samantektina á ensku hér en að neðan kemur smávægilegur útdráttur úr því sem Helena hafði fram að færa.
Við minnum líka á að leikurinn er í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni ESPN2.
Helena um úrslitakeppnina:
,,Reynsla okkar af úrslitakeppninni í fyrra var ekki góð reynsla en núna erum við komnar hingað og vitum hvað við þurfum að gera. Ég tel okkur vera klárar í slaginn,“ sagði Helena en hún ræddi m.a. um hversu innblásið liðið væri eftir að það heimsótti frægðarhöll kvennakörfuboltans.