spot_img
HomeFréttirIngi Þór: Fengum stóru körfuna

Ingi Þór: Fengum stóru körfuna

 
,,This is business,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson þjálfari Snæfells eftir leik í gær þegar Snæfell lagði KR í oddaleik í undanúrslitum Iceland Express deildar karla. Þetta var svar Inga Þórs er Karfan.is innti hann eftir því hvort það væru blendnar tilfinningar fyrir uppalinn KR-ing að senda sitt gamla félag í sumarfrí.
,,Maður leggur KR ekki til hliðar í svona baráttu og það er mjög erfitt en það er pro,“ sagði Ingi og ljóst að einvígið var gríðarstrembið enda hefur Ingi Þór verið ein af vítamínssprautum félagsins síðastliðin ár þangað til hann samdi við Snæfell síðasta sumar.
 
,,Þetta hlýtur að vera í fyrsta sinn sem þetta gerist, að allir leikirnir í undanúrslitaeinvígi vinnist á útivelli og þá getur vel verið að þetta sé í fyrsta sinn sem liðið í 6. sæti eftir deildarkeppnina komist í úrslitin,“ sagði Ingi Þór en varðandi leikinn sjálfan þá komu Hólmarar einbeittir til leiks og teygðu vel á vörn KR og leiddu því með 20 stigum eftir fyrstu 30 mínúturnar.
 
,,Menn voru orðnir þreyttir hérna í fjórða leikhluta en fram að því náðum við að gera hlutina mjög vel. Mér fannst við verða ráðþrota í fjórða leikhluta en við fengum stóru körfuna frá Berkis og hann er búinn að vera frábær í þessari seríu,“ sagði Ingi Þór en hvernig leggst framhaldið í hann?
 
,,Það verður mjög strembið því þeir eru með heimavöllinn og hafa ekki tapað mörgum leikjum þar. Við unnum hinsvegar Keflavík á þeirra heimavelli í bikarnum og ætlum okkur að nýta þá reynslu og förum fullir sjálfstrausts í þessa rimmu,“ sagði Ingi en miðað við hvernig liðin eru skipuð, þá Snæfell og Keflavík, telur Ingi að þau séu þá vel til þess fallin að opinbera veikleika hvers annars?
 
,,Já kannski, við erum með mjög ólíkan stíl og það er alveg á tæru að Keflvíkingarnir líta mjög vel út og eru mjög ferskir og þetta hlé á eftir að tikka vel inn hjá þeim og fyrsti leikurinn ætti að vera ferskari fyrir þá. Núna förum við bara að kortleggja hvað við ætlum að gera í úrslitunum,“ sagði Ingi Þór Steinþórsson sem á sínu fyrsta ári í Stykkishólmi er búinn að koma kvennaliðinu í fyrsta sinn í sögu félagsins í úrslitakeppnina, vinna bikar með karlaliðinu og fær nú á næstu dögum silfurverðlaun eða Íslandsmeistaratitil í Iceland Express deild karla. Óhætt að segja að kappinn hafi komið með látum í Hólminn!
 
Fréttir
- Auglýsing -