Ragnar Örn Bragason hefur á nýjan leik samið við uppeldisfélag sitt í ÍR og mun samkvæmt tilkynningu félagsins leika með þeim út næsta tímabil Subway deildar karla.
Ragnar lék upp alla yngri flokka og með meistaraflokki ÍR til ársins 2015, en síðan þá hefur hann leikið fyrir Keflavík og nú síðast Þór Þorlákshöfn. Þá hefur hann einnig verið hluti af íslenska a landsliðshópnum í síðustu verkefnum.
Á síðasta tímabili með Þór skilaði Ragnar 6 stigum, 2 fráköstum og 2 stoðsendingum á rúmri 21 mínútu spilaðri í leik að meðaltali.
Tilkynning:
Áfram streyma fréttirnar af karlaliðinu því nú í kvöld gekk Ragnar Örn Bragason til liðs við ÍR frà Þór Þ. Ragnar, eða Ragga eins og við ÍR-ingar þekkjum hann, þarf vart að kynna enda uppalinn í Breiðholti og spilaði í Hellinum til 21 árs aldurs. Síðustu sjö árin hefur hann leikið með Keflavík og í Þorlákshöfn þar sem hann lyfti m.a. Íslandsmeistaratitli sumarið 2021.
Aðspurður svaraði Ísak Máni Wíum því til að hann sé mjög ánægður með félagsskipti Ragga. Þykir honum einsýnt að Raggi færi hópnum þá reynslu og stemmningu sem þörf er á til að koma félaginu á þann stað sem stefnt er að. Einnig sé koma hans sérlega ánægjuleg í ljósi þess að um ræðir uppalinn leikmann enda sé markmið hans sem þjálfara leynt og ljóst að byggja liðið upp á heimamönnum.
Raggi sagði í stuttu og snörpu samtali við fréttaritara að í honum ríkti mikil tilhlökkun fyrir komandi tímum í hans heimabyggð og á nýjum heimavelli. Hann væri klár í nýja áskorun á hans ferli og sagðist hann þess fullviss að liðið myndi smella saman og ná árangri.
Enginn fagnar sennilega þó meira en Bóbó Dan, fyrirliði og leiðtogi Ghetto Hooligans. ,,Ég get sagt þér það að ég hef beðið eftir þessum degi í mörg ár. Að garga og góla á Ragga í vitlausu liði hefur sannanlega verið gaman því milli hans og okkar Hooligana er og hefur alltaf verið einstakt samband. Hann fílar að láta okkur stríða sér með söngvum en ég þykist vita að hann muni elska ástarsöngva okkar til hans. Raggi er okkar maður!”