,,Var það ekki Isiah Thomas sem sagði að ef það er til himnaríki þá er það einhvern veginn svona, heaven must be like this,“ sagði Hlynur Elías Bæringsson Íslandsmeistari og miðherji Snæfells í samtali við Karfan.is eftir sigurleik Hólmara í Keflavík. Lokatölur í Toyota-höllinni voru 69-105 Snæfell í vil í leik sem aldrei var spennandi. Hlynur var stigahæstur í liði Hólmara með 21 stig, 15 fráköst og 6 stoðsendingar.
,,Þetta er bara víma, ég svíf bara. Þetta var alveg ótrúlegt, það fór allt ofan í og við vorum svo ,,loose“ á því eftir þessa góðu byrjun. Við byrjuðum svo vel og þá losnaði um eitthvað af pressunni á mönnum og vorum bara algerlega pressulausir. Við hittum svakalega vel og vorum bara svakalega góðir, við erum besta skotlið landsins og sýndum það bara í dag,“ sagði Hlynur en eru þeir búnir að koma af stað gullæði í Hólminum?
,,Ég veit það ekki, en ég skal segja þér sérstaklega af hverju við þurftum að vinna þennan leik, ástæðan er sú að ég er nýbúinn að kaupa mér hús á Silfurgötu! Það gat ekki gerst að ég myndi tapa í fjórða skipti í úrslitum og eiga svo heima á Silfurgötu. Ég hefði þurft að selja húsið strax ef við hefðum tapað en ég fattaði þetta ekki fyrr en við vorum bara á leiðinni hingað til Keflavíkur í dag. Ég hefði örugglega bara verið kallaður silfurstrákurinn eða eitthvað í þeim dúr ef við hefðum ekki unnið,“ sagði Hlynur en hvað gerðist hérna í upphafi leiks, sjö fyrstu þristarnir detta, menn setja ekki svona hittni inn í leikskipulag dagsins, er það?
,,Það er erfitt að útskýra svona, við áttum líka erfið skot sem duttu niður og það var bara allt með okkur í þessum leik og þetta var bara yndislegt.“
Þið réðuðu Inga Þór til ykkar fyrir þetta tímabil og það virðist allt verða að gulli í höndunum á honum.
,,Já já, strákur eins og Emil fer úr því að vera varamaður hjá Breiðablik í því að vera byrjunarliðsmaður í besta liðið landsins. Ingi hlýtur að vera að gera eitthvað rétt og við erum líka með mjög sterka breidd, sterkan æfingahóp í strákum sem allir geta spilað körfubolta,“ sagði Hlynur en þá barst talið að framtíðinni, er hann farinn að hugsa út fyrir landsteinanna?
,,Það er best að vera hreinskilinn með þessi mál, ég er alveg með augun við atvinnumennskuna og til að koma í veg fyrir allan misskilning þá er ekkert í hendi en að sjálfsögðu mun ég skoða gott tilboð ef það berst. Ef ég get leikið körfubolta erlendis til að sjá fyrir fjölskyldu minni og sjá heiminn um leið þá verð ég auðvitað að hugsa um það, annað væri bara heimska. Ég þarf að sjá fyrir þremur börnum og konu og er ekki að fara að gera svimandi háar launakröfur, ef ég á ofan í mig og fjölskyldu mína að borða er ég sáttur.“