,,Þetta hefur vissulega verið mér erfitt en strákarnir og allir í kringum liðið hafa verið duglegir að láta mig heyra hversu stór þáttur ég hefði verið í þessu afreki,“ sagði Sean Burton leikstjórnandi Snæfells sem í gær, í borgaralegum klæðum, fagnaði Íslandsmeistaratitlinum með sínum félögum úr Hólminum. Jeb Ivey kom inn í úrslitaseríuna í stað Burton sem meiddist í oddaleiknum gegn KR.
,,Það hefur verið gaman að hvetja þá áfram af bekknum, enda átti ég ekki annarra kosta völ, en við höfum leikið frábærlega sem lið og það eru ekki til 15 aðrir leikmenn sem ég myndi vilja hafa í mínu liði,“ sagði Burton sem er mikil þriggja stiga skytta og hafði hann eitthvað með það að gera að Hólmarar hefðu sett niður sjö fyrstu þristana sína í leiknum?
,,Það gæti verið að ég hafi smitað þá eitthvað, að öllu gamni slepptu eru frábærir skotmenn í þessu liði og sjálfur var ég fullur sjálfstrausts fyrir þennan leik en hóflega bjartsýnn, við mættum svo bara í Keflavík og lékum frábærlega,“ sagði Burton og bætti við: ,,Það var mikilvægt að við héldum okkur við það skipulag sem lagt var fyrir og færum ekki að hugsa of mikið um það sem Keflavík væri að gera. Ég tel líka að Snæfellsliðið hafi sýnt á þessu tímabili að viðlíka árangur náist þegar menn leika liðsbolta,“ sagði Burton sem þegar hefur framlengt samning sinn við Snæfell og mun því stýra leik liðsins á næsta tímabili.