spot_img
HomeFréttirLakers lögðu Suns - Komnir í 2-0

Lakers lögðu Suns – Komnir í 2-0

LA Lakers lögðu Phoenix Suns í öðrum leik úrslita Vesturdeildar NBA, 124-112, og hafa nú unnið fyrstu tvo leiki liðanna. Suns léku mun betur í þessum leik en þeim fyrri, en þeir áttu ekkert svar gegn Kobe Bryant og félögum.
 
Stuðningsmenn Lakers og Boston Celtics eru skiljanlega farnir að líta hýrum augum á að mætast væntanlega í úrslitunum, þar sem bæði liðin eru 2-0 yfir og hafa sýnt mikla yfirburði í sínum viðureignum.
 
Lakers byrjuðu leikinn í nótt með miklum látum og skoruðu nær að vild og stýrðu hraða leiksins fullkomlega. Suns gáfust þó ekki upp og héldu sér inni í leiknum.
 
Grant Hill tók af skarið fyrir þá í þriðja leikhluta þar sem þeir strokuðu út 14 stiga mun og staðan var jöfn fyrir lokaleikhlutann, 90-90. Þar tóku Lakers þó öll völd og með 9-0 spretti um miðjan leikhlutann gerðu þeir hér um bil út um leikinn.
 
Kobe Bryant skoraði 40 stig í fyrsta leiknum og hann var í strangri gæslu í gær. Hann brást hins vegar við með því að senda boltann á félaga sína og lauk leik með 21 stig og 13 stoðsendingar.
 
Kobe og Pau Gasol voru óstöðvandi saman þar sem þeir létu boltann ganga inn og út og vörn Phoenix réði ekkert við þá og ef þeir halda uppteknum hætti í Phoenix gætu þeir hæglega klárað dæmið þar.
Fréttir
- Auglýsing -