Valur urðu rétt í þessu Íslandsmeistarar í Subway deild karla eftir sigur á Tindastól í oddaleik úrslita í Origo Höllinni, 70-63. Þetta mun verða þriðji Íslandsmeistaratitill félagsins, sem þó hafði aldrei unnið titilinn síðan að fyrirkomulag úrslitakeppni var tekið upp. Titlarnir tveir sem Valur vann áður en það var voru 1980 og 1983.
Fyrir leik
Fyrir leikinn höfðu liðin hvort um sig unnið tvo leiki, Valur sína tvo heimaleiki og Tindastóll leikina á Sauðárkróki.
Ljóst var að sama hver niðurstaðan yrði í kvöld, þá væri hún söguleg. Hvorugt liðið hafði áður unnið Íslandsmeistaratitilinn eftir að fyrirkomulag úrslitakeppni var tekið upp, en fyrir það hafði Valur þó unnið tvo titla, 1980 og 1983.
Gangur leiks
Gestirnir úr Skagafirði byrjuðu leik kvöldsins betur. Lítið virtist ganga sóknarlega hjá heimamönnum og náði Tindastóll að byggja sér 10 stiga forystu á fyrstu fimm mínútum leiksins, 3-13. Eftir gott leikhlé og innkomu Hjálmars Stefánssonar og Jacob Calloway inn í leikinn virðist Valur þó ná áttum. Stólarnir ná þó að loka fyrsta leikhlutanum vel og eru 8 stigum yfir fyrir annan, 14-22.
Heimamenn gera sig líklega til þess að ætla að jafna leikinn í upphafi annars leikhlutans, en Stólarnir ná að svara því ágætlega og eru enn 7 stigum yfir þegar fimm mínútur eru eftir af hálfleiknum, 23-30. Undir lok hálfleiksins nær Valur að vinna forystuna alveg niður og komast yfir í fyrsta skipti í leiknum. Leikurinn þó í járnum þegar að liðin halda til búningsherbergja, 36-36.
Stigahæstur heimamanna í fyrri hálfleiknum var Hjálmar Stefánsson með 14 stig á meðan að Taiwo Badmus var kominn með 14 stig fyrir Tindastól.
Með tveimur þristum frá Pavel Ermolinskij nær Valur að komast skrefinu á undan í upphafi seinni hálfleiksins. Munurinn þó aðeins 4 stig þegar að fimm mínútur eru liðnar af þriðja leikhlutanum, 46-42. Undir lok fjórðungsins er leikurinn svo í nokkru jafnvægi. Báðum liðum gekk frekar erfiðlega á sóknarhelmingi vallarins, en munurinn fyrir fjórða leikhlutann var aðeins eitt stig, 50-49.
Heimamenn ná aftur að búa til bil á milli sín í Tindastóls í upphafi fjórða leikhlutans. Átram hélt stórleikur Hjálmars Stefánssonar, en þegar um fimm mínútur voru eftir af leiknum var hann kominn með 20 stig og Valur 7 stigum yfir, 60-53. Undir lokin lætur Valur svo kné fylgja kviði og ná sinni mestu forystu í leiknum, 10 stigum, þegar aðeins tæpar tvær mínútur eru eftir. Eftirleikur var að er virtist nokkuð auðveldur fyrir heimamenn, sem lönduðu að lokum sínum fyrsta Íslandsmeistaratitil frá árinu 1983 með 73-60 sigri.
Atkvæðamestir
Hjálmar Stefánsson var maður leiksins í kvöld, með 24 stig og 5 fráköst. Þá bætti Kristófer Acox við 13 stigum og 19 fráköstum fyrir Íslandsmeistarana.
Í liði Tindastóls var Taiwo Badmus atkvæðamestur með 17 stig, 7 fráköst og Javon Bess honum næstur með 13 stig og 10 fráköst.
Myndasafn (Hjalti Árna – Væntanlegt)
Myndasafn (Márus Björgvin – Væntanlegt)
Viðtöl væntanleg