Fjölnismenn hafa fengið myndarlegan liðsstyrk úr Borgarnesi en tveir af efnilegustu leikmönnum Skallagríms, þeir Trausti Eiríksson og Sigurður Þórarinsson, munu leika með Grafarvogsliðinu í Iceland Express deildinni á næsta tímabili. Þetta staðfesti Tómas Holton þjálfari Fjölnis í samtali við Karfan.is.
,,Þeir hafa æft með okkur undanfarið enda eru þeir báðir að fara í háskólanám og mér líst vel á þá,“ sagði Tómas í samtali við Karfan.is. ,,Þessir strákar þekkjast mjög vel enda þrír leikmenn úr Fjölni sem hafa spilað með Sigurði og Trausta í yngri landsliðunum. Það er gaman að fá svona viðbót þegar við erum fyrir með ungt og spennandi lið,“ sagði Tómas en þessa dagana er verið að ganga frá félagsskiptum leikmannanna.
,,Mér fannst gaman að sjá hjá Fjölni í fyrra að ungir og efnilegir leikmenn fengu tækifæri til að sanna sig og um leið og ég tók við liðinu ákvað ég að áframhald yrði þar á og Sigurður og Trausti falla vel inn í það, verða á sama stað og allir aðrir í liðinu. Svo er bara að sjá hvernig þetta kemur allt út,“ sagði Tómas.
Trausti Eiríksson var með 5,7 stig, 8,5 fráköst og 2,8 stoðsendingar að meðaltali í leik á síðasta tímabili með Skallagrím í 1. deild en Sigurður Þórarinsson gerði 8,7 stig, 5,3 fráköst og 1,5 stoðsendingar að meðaltali í leik.
Eins og áður hefur komið fram er Bandaríkjamaðurinn Christopher Smith enn efstur á óskalista Fjölnismanna en tvennutröllið átti góðan vetur með Grafarvogsliðinu á síðasta tímabili. ,,Það er ekkert frágengið en búið að tala við hann og umboðsmanninn hans en ekkert í hendi. Smith var svona það fyrsta sem mér datt í hug enda fannst mér hann standa sig vel í fyrra.“
Ljósmyndir/ Jón Björn Ólafsson – Á efri myndinni er Trausti í leik með Snægrím, sameiginlegu liði Snæfells og Skallagríms, í drengjaflokki en það lið varð bikarmeistari eftir frækinn spennusigur á Hamri/Þór Þorlákshöfn. Á neðri myndinni er Sigurður í teigbaráttunni í sama leik.