Ron Artest ætlar að blása til uppboðs þar sem hæstbjóðandi getur tryggt sér meistarahring leikmannsins frá sigri Lakers í NBA deildinni á síðustu leiktíð. Ástæðan fyrir uppboðinu er sú að leikmanninum finnst sálfræðihjálp til handa ungmennum og þá sérlega þeim minna efnaðri vera af skornum skammti. Sjálfur segir hann sálfræðiaðstoð og viðlíka meðferðir hafa hjálpað sér töluvert.
Þegar Lakers varð meistari þakkaði Artest m.a. sálfræðingi sínum fyrir aðstoðina við að hjálpa sér að slaka á meðan á úrslitakeppninni stóð. Þá fékk Artest sálfræðiaðstoð þegar hann var 13 ára gamall en sú aðstoð datt upp fyrir sökum skorts á fjármagni og úr því vill Artest bæta.
Nú þegar hafa frægir einstaklingar og fjárfestar þegar boðið 50-100 þúsund dollara í hringinn en Artest vill hafa opið uppboð þar sem allir geta tekið þátt í að bjóða í hringinn og stefnan er sett á 1-3 milljónir dollara.
Artest setur dæmið upp þannig að í raun hafi hann ekki unnið hring á síðustu leiktíð því hann eigi að þjóna þessu málefni og segir: ,,Mér finnst enn eins og ég eigi eftir að sanna mig, ég er á höttunum eftir mínum fyrsta meistarahring!”