spot_img
HomeFréttirÁlftanes vann nýliða Fram

Álftanes vann nýliða Fram

 
Álftanes vann á mánudagskvöld Fram í 2. deild karla í körfuknattleik 71-59. Álftnesingar höfðu undirtökin mestallan leikinn. Þeir misstu samt niður níu stiga forskot, 50-41, í þriðja leikhluta og lentu undir um tíma. Þeir náðu samt að rífa sig upp og allan lokafjórðunginn byggðu þeir upp öruggt og vaxandi forskot.
Álftanesliðið hefur orðið fyrir nokkurri blóðtöku í sumar en liðið komst í undanúrslit í fyrra. Snorri Örn Arnaldsson þjálfari er hættur og stóru mennirnir Valur Valsson, Aðalsteinn Jósefsson, Finnur Torfi Gunnarsson og Sigurbjörn Ottó Björnsson hafa ýmist fundið sér ný lið eða lagt skóna á hilluna.
 
Fram-liðið hefur ekki verið með í deildinni áður en það byggir á leikmönnum sem flestir hafa alist upp hjá ÍR. Í þeirra liðið átti miðherjinn Heimir góðan leik, skoraði 17 stig, tók níu fráköst og varði fjögur skot. Sveinn Guðmundsson skoraði flest stig Álftnesinga, 17 talsins, auk þess að taka níu fráköst.
 
Texti og ljósmyndir/ Gunnar Gunnarsson

Fréttir
- Auglýsing -