Tapleikur setti skugga á fyrsta parketleik ÍR í Seljaskóla þegar liðið lá 76-79 gegn Njarðvík í baráttuleik. Heimamenn fengu tækifæri til þess að jafna leikinn með lokaskoti sem geigaði og því fögnuðu Njarðvíkingar sínum fyrsta sigri á tímabilinu. Antonio Houston vaknaði til lífsins hjá grænum eftir miður góðar frammistöður undanfarið en kappinn setti 23 stig og tók 7 fráköst. Hjá ÍR var Nemanja Sovic með 23 stig og 9 fráköst.
Antonio Houston gerði fimm fyrstu stig Njarðvíkinga í leiknum en Nemanja Sovic bætti um betur fyrir ÍR og gerði níu fyrstu stig heimamanna. Níels Dungal kom sprækur af bekknum og kom ÍR í 11-10 með gegnumbroti og varð þar með fyrstur heimamanna til að skora að frátöldum Sovic.
ÍR-ingar beittu svæðisvörn sem gaf gestunum mörg opin skot og settu Njarðvíkingar fjóra þrista í fyrsta leikhluta í 10 tilraunum. Þristarnir voru fleiri en teigskotin og virtist heimamönnum ekkert líða neitt sérlega illa þó grænir væru að fá oft og tíðum galopin skot.
Jóhann Árni Ólafsson hélt vel aftur af Kelly Beidler í upphafi leiks en Beidler óx ásmegin þegar líða tók á leikinn. Gestirnir leiddu 17-23 eftir fínan upphafsleikhluta.
Ásgeir Hlöðversson kom með nokkra súputeninga inn í annan leikhluta hjá ÍR og sallaði niður fjórum stigum á skömmum tíma en Njarðvíkingar voru þó áfram skrefinu á undan þökk sé fínum varnarleik þeirra. Hjörtur Hrafn Einarsson var einnig að taka fínar rispur í Njarðvíkurliðinu en nokkuð hafði hægst á stigaskorinu hjá báðum liðum.
Guðmundur Jónsson sleit gestina frá í 27-34 með dreifbýlisþrist þegar rúmar þrjár mínútur voru til hálfleiks. Heimamenn létu það ekki á sig fá og náðu að minnka muninn í 33-36 og þannig stóðu leikar í hálfleik.
Töluverð harka færðist í leikinn í síðari hálfleik og heimamönnum virtist líka það ágætlega en einnig Antonio Houston í Njarðvíkurliðnu sem splæsti í 5 stig á álíka mörgum sekúndum en Kelly Beidler svaraði með þrist hinum megin og staðan 44-45. Þegar tæpar þrjár mínútur voru til loka þriðja fjórðungs fékk Hjalti Friðriksson sína fimmtu villu í liði ÍR og varð frá að víkja, eitthvað sem ÍR teigurinn mátti illa við.
Rúnar Ingi Erlingsson lokaði svo leikhlutanum með sóknarfrákasti og körfu í teignum fyrir Njarðvíkinga sem leiddu 57-60 fyrir lokasprettinn en Rúnar átti góða spretti í síðari hálfleik.
Njarðvíkingar byrjuðu fjórða leikhluta með látum og gerðu 7 fyrstu stigin og komust í 57-67 en við það tók Gunnar Sverrisson leikhlé fyrir sína menn í ÍR. Heimamenn létu ekki deigan síga á nýja parketinu og náðu hægt og bítandi að vinna sig upp að hlið Njarðvíkinga og minnka muninn í 76-77 eftir risastóran þrist frá Nemanja Sovic sem hafði lungann úr síðari hálfleik verið vart skugginn af sjálfum sér.
Í næstu Njarðvíkursókn fór Páll Kristinsson á línuna en brenndi af báðum vítunum þegar 27 sekúndur voru til leiksloka. ÍR hélt í sókn en Njarðvíkingar komust inn í sendingu Kelly Beidler þegar 6 sekúndur voru eftir og brutu á Guðmundi Jónssyni þegar 3,4 sekúndur voru eftir af leiknum. Guðmundur var öryggið uppmálað á línunni og kom Njarðvík í 76-79. ÍR tók leikhlé og síðan innkast af miðjum vellinum og barst boltinn loks til Karolis Marcinkevicius sem freistaði þess að jafna leikinn með erfiðu þriggja stiga skoti en það geigaði og Njarðvíkingar fögnuðu sínum fyrsta sigri á tímabilinu en þetta var jafnframt annar ósigur ÍR sem lágu gegn Keflavík í fyrstu umferð.
Heildarskor:
ÍR: Nemanja Sovic 23/9 fráköst, Kelly Biedler 21/7 fráköst, Karolis Marcinkevicius 10, Níels Dungal 9/4 fráköst, Ásgeir Örn Hlöðversson 9, Hjalti Friðriksson 4, Ólafur Þórisson 0, Vilhjálmur Steinarsson 0, Vilhjálmur Theodór Jónsson 0, Bjarni Valgeirsson 0, Davíð Þór Fritzson 0, Elvar Guðmundsson 0.
Njarðvík: Antonio Houston 23/7 fráköst, Rúnar Ingi Erlingsson 11, Guðmundur Jónsson 11/5 fráköst, Páll Kristinsson 11, Jóhann Árni Ólafsson 9, Hjörtur Hrafn Einarsson 9, Friðrik E. Stefánsson 5/4 fráköst, Egill Jónasson 0/4 fráköst, Lárus Jónsson 0, Ólafur Helgi Jónsson 2 0, Óli Ragnar Alexandersson 0, Kristján Rúnar Sigurðsson 0.
Dómarar: Rögnvaldur Hreiðarsson, Jón Bender
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – Jóhann Árni Ólafsson gerir hér 2 af 9 stigum sínum í leiknum fyrir Njarðvíkinga
Umfjöllun: Jón Björn Ólafsson – [email protected]