Þór Þorlákshöfn er nú á toppi 1. deildar karla ásamt nöfnum sínum frá Akureyri en bæði lið hafa unnið þrjá fyrstu leiki sína á tímabilinu. Í gærkvöldi mættust Þór Þorlákshöfn og FSu í Þorlákshöfn þar sem heimamenn höfðu afgerandi sigur. Erlendu leikmenn Þórsara báru hitann og þungann af leiknum og skoruðu samtals 65 af 88 stigum liðsins. Lokatölur leiksins voru 88-77 Þór í vil en þeir Richard Field og Valur Orri Valsson gerðu saman 56 af 77 stigum Selfyssinga.
Benedikt tók við Þór í sumar þegar hann hætti þjálfun KR kvenna eftir að hafa gert þær að Íslandsmeisturum og virðist vera á réttri braut með Þórsara. Þá var þetta fyrsti ósigur FSu á leiktíðinni sem höfðu fyrir lagt Blika og Leikni.
Hjalti Vignisson var í Þorlákshöfn og sendi meðfylgjandi mynd þar sem Benedikt er í miðri messu í Þorlákshöfn en fleiri myndir frá leiknum eftir Hjalta má sjá hér og þar gefur m.a. að líta skemmtilegar myndir af stuðningsmannasveit Þórsara.