,,Við erum með hörkulið og vörn sem að virkar þegar hausinn er í lagi," sagði Svavar Páll Pálsson hinn rólegasti eftir frækinn sigur Hamars 76-90 gegn Njarðvík í Iceland Express deild karla í kvöld. Svavar Páll var með 12 stig og 8 fráköst í liði Hamars í kvöld og barðist eins og enginn væri morgundagurinn.
,,Við höfum trú á því að við getum unnið hvaða lið sem er hvar sem er," sagði Svavar og finnst honum liðið vera að sýna það í undanförnum leikjum? ,,Nei, ekki í Fjölnisleiknum, þá var hausinn ekki í lagi, vorum með mjög góðar stöður í leikjunum gegn Fjölni og Haukum en náum ekki að halda einbeitingu og hleypum liðunum inn í leikina í aftur," sagði Svavar og viðurkenndi að vissulega hefðu sigrarnir gegn KR, Keflavík og Njarðvík sett ofan í við boltaspekinga ýmsa.
,,Það er alveg rétt að okkur var ekki spáð vel en það er svo sem venjan og við ætluðum okkur alltaf að gera betur en spáin sagði til um. Okkar takmörk eru mun metnaðarfyllri en spáin segir til um. Við höfum tvo nýja leikmenn í Ellert og Darra, þeir eru aldeilis að standa sig vel og kannski of margir að einblína á brotthvarf Marvins Valdimarssonar. Ég er samt ekki í neinum vafa um að við séum með betra lið núna en í fyrra, við fáum inn um sjö nýja leikmenn sem spila misjafnlega stór hlutverk en það eru allir grimmir og stemmningin er góð svo við erum ekkert hættir."
Ljósmynd/ Tomasz Kolodziejski – Svavar Páll lét vel fyrir sér finna í Njarðvík í kvöld.