Miami Heat og LA Lakers eru á góðu róli, Heat hafa nú unnið fjóra leiki í röð í NBA deildinni eftir tap gegn Boston í opnunarleik tímabilsins og meistarar Lakers hafa enn ekki stigið feilspor og unnið fjóra fyrstu leiki sína á tímabilinu. Alls fóru sex leikir fram í NBA deildinni í nótt og voru sigrar Heat og Lakers öruggir! Fresta varð viðureign New York Knicks og Orlando Magic þar sem asbestagnir í Madison Square Garden komust víða þegar verið var að taka til eftir íshokkileik New York Rangers.
Miami burstaði Minnesota 129-97 á heimavelli þar sem Dwyane Wade gerði 26 stig og LeBron James var með 20 stig og 12 stoðsendingar. Hjá Minnesota var Kevin Love með 20 stig.
Lakers skelltu Memphis 124-105 í Staples Center þar sem Kobe Bryant skoraði 23 stig en Pau Gasol gerði 21 stig og tók 13 fráköst. Hjá Memphis var Rudy Gay með 30 stig.
Þá var mikil spenna í viðureign Philadelphia og Washington. John Wall, nýliðinn öflugi í liði Wizards, daðraði við þrennuna með 29 stig, 13 stoðsendingar og 9 stolna bolta. Framlengja varð leikinn þar sem Sixers áttu síðasta skotið sem geigaði. Hjá Sixers var Louis Williams atkvæðamestur með 30 stig af bekknum!
Önnur úrslit næturinnar:
Cleveland 88-100 Atlanta
Detroit 89-109 Boston
Milwaukee 76-90 Portland
Ljósmynd/ Kobe og félagar eru ósnertanlegir þessa stundina.