Eftir að hafa unnið góðan sigur á liði Breiðabliks í bikarkeppninni í körfubolta lentu Tindastólsmenn í hremmingum á leiðinni heim en kalla þurfti út björgunarsveit eftir að rúta liðsins festi sig í snjóskafli efst á Þverárfjalli í nótt.
Að sögn Kára Maríssonar sem var bílstjóri í ferðinni var mikil bleyta í snjónum og hafði skafið í góðan skafl sem rútan komst ekki í gegnum. „Ég fann um leið og ég byrjaði eitthvað að reyna að losa bílinn á rann hann í halla á veginum og stefndi út af. Það var því betra að kalla bara strax eftir aðstoð enda mikil bleyta í snjónum og bíllinn í raun pikkfastur“, útskýrir Kári. Um klukkutíma tók að losa rútuna og tvo aðra bíla sem einnig voru í vandræðum og segir Kári að liðið hafi verið komið heim á Sauðárkrók um klukkan hálf þrjú í nótt.
Mynd: Jóhann Sigmarsson / Sean Cunningham er strax farinn að kynnast Íslandi