,,Maður þekkir alla hérna og mikið kallað á mann í stúkunni en þetta var mjög gaman, alltaf gaman að koma hingað,” sagði Hörður Axel Vilhjálmsson sæll í bragði eftir sigur Keflavíkur á Fjölni í Iceland Express deild karla í kvöld. Hörður lét uppeldisfélagið sitt finna vel fyrir tevatninu og skoraði 14 stig, gaf 11 stoðsendingar og tók 7 fráköst á gamla heimavellinum.
Eruð þið komnir á sporið, búnir að finna blóðbragðið?
,,Við byrjuðum á þremur tapleikjum í röð og það er aldrei ásættanlegt í Keflavík og gæti orðið dýrt síðar á tímabilinu. Það verða örugglega 5-6 lið sem eiga eftir að kroppa stig af öllum svo maður veit eiginlega ekki hvernig þetta verður í vetur,” sagði Hörður en vindum okkur þá í þriðja leikhlutann þar sem Keflavík gerði 36 stig, fengu þeir hárþurrkumeðferð hjá Pétri aðstoðarþjálfara í hálfleik?
,,Nei, við bara tókum aðeins til í hausnum á okkur og vildum bara gera betur, við höfum verið að detta oft niður á plan andstæðinga okkar en við verðum bara að keppa að því að spila á okkar plani og finna stöðugleika. Lazar er svo nýkominn inn í þetta hjá okkur og er mjög góður en okkar leikur stoppar ennþá svolítið hjá honum þar sem hann er svo nýr en hann setti 36 stig í kvöld og við kvörtum ekki mikið undan því.”
Ljósmynd/ Úr safni