spot_img
HomeFréttirSemaj og Pavel í PEAK: Finnum fyrir jákvæðum viðbrögðum

Semaj og Pavel í PEAK: Finnum fyrir jákvæðum viðbrögðum

 
Kapparnir Pavel Ermolinskij og Semaj Inge eru andlit PEAK körfuboltaskóna á Íslandi leiktíðina 2010-2011. PEAK skór eru nú loks komnir á markað á Íslandi en það eru bræðurnir Bjarmi Skarp og Kristján Már sem fara með umboðið hérlendis. Karfan.is stakk nefinu inn hjá PEAK þar sem verið var að mynda þá Pavel og Semaj í bak og fyrir til kynningar á nýju skónum.
,,Við erum á Facebook undir ‘Peak Ísland’ og svo fer vefsíðan okkar superskor.is í loftið á næstunni. Við höfum verið í sambandi við körfuboltaliðin hér heima og finnum fyrir jákvæðum viðbrögðum,” sagði Bjarmi Skarp við Karfan.is en hvernig kom þetta allt saman til?
 
,,Það mátti nýta sér það að hin umboðin eru svolítið sofandi í þessum körfuboltageira. Á sínum tíma þegar ég ætlaði að fá mér körfuboltaskó gat ég valið á milli para sem kostuðu 24 eða 26 þúsund krónur. Ég vældi eitthvað um þetta við Kristján bróður og þá sagði hann: Eigum við ekki bara að gera eitthvað í málinu,” sagði Bjarmi. Peak merkið varð fyrir valinu og nú hafa fyrstu leikmennirnir, Pavel og Semaj, fengið eintök í sínar hendur og munu leika í skónum í vetur.
 
,,Það var úthugsað að fá Pavel og Semaj í þetta, leikmanninn sem er oftast með þrefalda tvennu og þann sem vinnur troðslukeppnina í næsta Stjörnuleik KKÍ,” sagði Bjarmi í léttum dúr en er hann sjálfur búinn að prufukeyra skóna?
 
,,Já, ég get vottað gæðin, sjálfur hef ég prófað þá og fengið aðra til þess, það var ein af ástæðunum fyrir því að við völdum PEAK, þetta er hörku merki,” sagði Bjarmi en við létum ekki nægja að yfirheyra innflutnings- og umboðsaðilann heldur tókum stutt spjall við Pavel og Semaj.
 
,,Þeir eru allavega flottir, það er það fyrsta sem maður tekur eftir og verður spennandi að prófa þá á æfingu,” sagði Pavel Ermolinskij. Hvernig fannst honum annars að vera mættur í bullandi markaðsstarf, á búning í stúdíó-myndatöku? ,,Ég held að fyrirsætustörfin hefðu orðið fyrir valinu ef ég hefði ekki farið í körfu,” sagði Pavel léttur á manninn. Semaj var hins vegar búinn að fá veður af þessum skóm áður en þeir komu til Íslands.
 
,,Mér líst vel á þessa skó, ég sá þá í Kína í fyrra þegar ég fór með KR en þetta par sem ég fékk hér á Íslandi er með því flottasta af þeim PEAK skóm sem ég hef séð. Ég hef séð nokkra NBA leikmenn spila í þessu merki og vildi vita meira um þetta svo það var tilvalið að fá nokkur eintök hér,” sagði Semaj sem væntanlega mun PEAK-a yfir einhverja í nýju skónum.
 
Ljósmyndir/ Kristján Már
 
Fréttir
- Auglýsing -