Það var hörkuleikur sem boðið var upp á í Röstinni í kvöld er heimamenn mættu Stjörnunni í Iceland Express deild karla. Leikurinn var jafn framan af og um miðjan annan leikhluta voru Stjörnumenn komnir 9 stigum yfir Grindavík og leit út fyrir að þeir væru að ná tökum á leiknum en þá sagði Guðlaugur nokkur Eyjólfsson hingað og ekki lengra og skellti niður þremur stórum þristum á stuttum tíma og breytti stöðunni úr 33-41 í 42-41. Við þessa sýningu hans kveiknaði á Grindavíkurliðinu sem spilaði grimma vörn og góða sókn og í lok leikhlutans var staðan 51-41 og Stjarnan aðeins búin að skora 1 stig seinustu 5 mínútur leikhlutans.
Í seinni hálfleik börðust Stjörnumenn við að komast inn í leikinn en alltaf þegar þeir nálguðust Grindavíkur liðið og náðu að minnka muninn niður í 4-6 stig þá kom syrpa frá Grindavík sem náðu alltaf að halda Stjörnunni skrefi frá sér. Leikurinn var hraður og skemmtilegur en hápunkt leiksins átti eins og svo oft áður Ólafur Ólafsson sem tróð beint úr alley-up sendingu frá bróður sínum, Þorleifi Ólafssyni í fjórða leikhluta yfir sofandi vörn Stjörnunnar. Það vakti þó furðu áhorfenda að Ólafur kom ekki inn á fyrr en í fjórða leikhluta en þá ætlaði hann greinilega að sanna sig og spilaði mjög vel þær mínútur sem hann var inn á vellinum.
Munurinn á liðunum tveimur í kvöld var sá að í Grindavíkurliðinu voru sex leikmenn sem skoruðu 12 stig eða meira meðan Jovan Zdravevski og Justin Shouse drógu vagninn að mestu leyti fyrir Stjörnuna og ljóst að það þarf að fá meira út úr Marvini Valdimarssyni og Fannari Helgasyni ef vel á að ganga. Þó verður að nefna að Fannar fór meiddur af velli í seinni hálfleik. Guðjón Lárusson átti einnig ágætis innkomu hjá Stjörnunni með 9 fráköst og þar af 7 í sókn. Hjá Grindavík var þetta liðsheildin sem vann leikinn, Guðlaugur Eyjólfsson, Þorleifur Ólafsson, Páll Axel Vilbergsson, Ómar Sævarsson og Ryan Pettinella stóðu sig mjög vel en erfitt er að dæma nýja leikmann Grindavíkur, Jeremy Kelly, sem virkaði nokkuð úr formi en skoraði 12 stig og virkar mjög snöggur. Aðrir leikmenn Grindavíkur áttu góða innkomu þær mínútur sem þeir spiluðu.
Hjá Grindavík var Páll Axel stigahæstur með 20 stig, Ómar Örn með 17 stig og 9 fráköst, Gulli með 17 stig, Ryan með 13 stig og 11 fráköst og Þorleifur með 13 stig og 6 stoðsendingar. Athygli vakti að vítanýting Ryan var 3/13 í leiknum og minnti vörn Stjörnumanna stundum á Hack-a-Shaq vörnina sem spiluð var gegn Shaquille O‘Neal sem er frekar döpur vítaskytta eins og flestir körfuknattleiksaðdáendur vita en sú vörn gengur út á að brjóta frekar á leikmanninum og fá hann til að taka víti í staðinn fyrir að hann skori auðvelda körfu úr teignum.
Hjá Stjörnunni var Justin Shouse með 29 stig og Jovan Zdravevski með 23 stig og 6 stoðsendingar.
Guðlaugur Eyjólfsson var mjög ánægður með sigurinn en fannst Grindavíkurliðið vera í basli mest allan leikinn.
„Þetta var bara basl, við byrjuðum illa, komum svo inn í leikinn en misstum þetta aftur niður, þannig að þetta var erfitt og gott lið sem við vorum að spila við og við að slípa okkur saman eftir að hafa skipt um útlending svo þetta tekur smá tíma. Nýji útlendingurinn er í engu formi en þetta er hörkuleikmaður.
Þetta var sterkur sigur hjá okkur í kvöld og næsti leikur er við Hamar úti og það verður hörkuleikur og við höfum viku til að koma nýja leikmanninum inn í leikinn okkar en við erum með breiðan hóp og stigaskorið skiptist á milli margra leikmanna og það er mjög gott. Okkar styrkleiki á að vera varnarleikur en það sást ekki alveg núna en hann verður betri með hverjum leik.“
Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir