Meiðyrðamál Srdans Stojanovic, fyrrverandi leikmanns Þórs Ak., gegn Huga Halldórssyni var tekið fyrir í Héraðsdómi Reykjaness fyrir skömmu síðan. Hann fer fram á að ummæli Huga í hlaðvarpsþættinum The Mike Show verði dæmd dauð og ómerk. Hann fer einnig fram á eina og hálfa milljón í miskabætur.
Í maí á seinasta ári ýjaði Hugi að því í þætti sínum að Stojanovic væri flæktur í veðmálasvindl og að fyrir leik Þórs gegn Njarðvík hafi verið haldinn neyðarfundur með stjórn Þórs þar sem rætt var við Srdan. Leikurinn gegn Njarðvík tapaðist 97-75.
Þór Akureyri sagði að ekkert væri hæft í þessum ummælum og sögðu enn fremur að það „að nafngreina og ásaka leikmann opinberlega í fjölmiðlum án þess að hafa fyrir sér nokkur sönnunargögn kallar á að viðkomandi einstaklingur muni leita réttar síns með tilliti til meiðyrðamáls enda ásökunin grafalvarleg og ætti ekki á nokkurn hátt að vera tekið léttvægt,“ í yfirlýsingu sem félagið gaf frá sér.
Lögmaður Stojanovic, Gunnar Ingi Jóhannsson, segist ekki gera ráð fyrir því að aðalmeðferð í málinu fari fram fyrr en í haust.
Sjálfur segir Srdan að þetta snúist um að hreinsa nafn hans að því leiti sem hægt sé. Miskabæturnar séu aukaatriði. „Að hreinsa nafn mitt er aðalmálið,“ segir hinn serbneski Srdan Stojanovic, sem hefur ungverskt vegabréf og hefur því spilað sem Bosman leikmaður þau tímabil sem hann hefur verið hér á Íslandi. Hann kveðst ánægður með að málið sé loksins komið í farveg.
Stojanovic á að baki þrjú ár sem atvinnumaður á Íslandi með Fjölni og Þór Akureyri. Á þeim tímabilum skoraði hann að meðaltali 18 stig í leik, tók 4.5 fráköst, gaf 3.4 stoðsendingar og setti tæplega þrjá þrista í leik með 41% þriggja stiga nýtingu.