spot_img
HomeFréttirHaukar fundu taktinn í blá lokin(Umfjöllun)

Haukar fundu taktinn í blá lokin(Umfjöllun)

Það var mikil stemning á Ásvöllum í kvöld þegar Haukar og Þór Þorl. mættust í 16 liða úrslitum Poweradebikarsins. Fjölmargir stuðningsmenn Þórs voru mættir í Hafnarfjörðinn og létu vel í sér heyra. Má segja að stuðningssveit Þórs hafi kveikt í trommusveit Hauka og fyrir vikið varð stemningin hreint út sagt frábær og ekki skemmdi leikur liðanna fyrir.
Frá fyrstu mínútu var ljóst að þetta yrði hörku leikur. Þórsarar byrjuðu af miklum krafti og settu strax á fyrstu mínútu niður tvær þriggja stiga körfur og komst í 0-6. Haukar minnkuðu muninn í tvö stig og þannig má segja að leikurinn hafi verið allt fram í fjórða leikhluta.
 
Þór leiddi eftir fyrsta leikhluta með tveimur stigum 21-23 og fóru inn í hálfleikinn með tveggja stiga forskot 42-44. Þór var án nokkurs vafa betri aðilinn í fyrri hálfleik og voru yfir allan hálfleikinn þó aldrei meira en fimm stigum.
 
Hálfleikspistill Péturs Ingvarssonar þjálfara Hauka hefur verið kröftugur því Haukaliðið kom mun sterkara til leiks í seinni hálfleik. Vörn heimamanna var þétt með hinn unga Emil Barja fremstan í flokki og gerðu hann og Semaj Inge mikinn usla í vörninni. Emil var settur til höfuðs Eric Palm sem hafði farið hamförum í fyrri hálfleik en hann var óstöðvandi í fyrri hálfleik.
 
Haukar komust yfir og ávallt þegar þeir gerðu sig líklega til að síga fram úr mætti fyrrnefndur Eric Palm á svæðið og minnkaði muninn. Þórsarar komust aftur yfir í byrjun fjórða leikhluta og skiptust liðin á körfum og forystu.
 
Vendipunktur leiksins má segja að hafi verið í þegar fjórði leikhluti var hálfnaður. Haukar héldu til sóknar og Eric Palme fékk sína fjórðu villu. Í næstu sókn Þórsara náði Emil Barja, leikmaður Hauka, að komast fyrir Eric sem fékk dæmdan á sig ruðning og þar af leiðandi sína fimmtu villu.
Þórsarar náðu þó að hanga í Haukum þar til um þrjár mínútur voru eftir leiks en þá fundu heimamenn taktinn og kláruðu leikinn.
 
Sigur Hauka var með 10 stigum 84-74 og þeir því komnir áfram í 8 liða úrslit.
 
Gerald Robinson var sterkur fyrir Haukaliðið og gerði 21 stig og tók 15 fráköst. Semaj Inge var með 18 stig, 10 fráköst og 5 stolna bolta og Sveinn Ómar Sveinsson gerði 13 stig og tók 10 fráköst.
 
Hjá Þór var Eric Palme langbesti leikmaður Þórs og gerði hann 33 stig og gaf 7 stoðsendingar áður en hann yfirgaf dansgólfið. Næstur honum var Vladimir Bulut með 14 stig og 11 fráköst og Philip Perre gerði 11 stig.
 
 
Mynd: Semaj Inge brýst að körfu Þórs[email protected]
 
Fréttir
- Auglýsing -