Fjórir leikir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni í körfuknattleik í gærkvöldi þar sem Axel Kárason og Sigurður Þór Einarsson máttu báðir sætta sig við ósigur á útivelli með liðum sínum. Kapparnir eru nú komnir í jólafrí og töpuðu því sínum síðasta leik á árinu.
Værlöse tapaði naumlega á útivelli gegn Aalborg Vikings 84-80 þar sem Axel Kárason skoraði 7 stig fyrir Værlöse. Axel var einnig með 5 fráköst og 3 stolna bolta í leiknum. Eftir leikinn í gær er Værlöse í 8. sæti deildarinnar með 8 stig og kvöddu því árið 2010 með tapleik.
Sigurður Þór Einarsson skoraði 3 stig og tók 3 fráköst þegar Horsens IC lá á útivelli í gær gegn Team Fog Næstved. Sigurður lék í rúmar 24 mínútur í leiknum og stal einnig 3 boltum. Horsens fer í jólafrí í 4. sæti deildarinnar með 16 stig.
Mynd/ Axel Kárason skoraði 7 stig fyrir Værlöse í tapi gegn Aalborg.