Stjörnumenn tóku á móti Hamri í Iceland Express deild karla í kvöld. Fyrir leikinn voru liðin jafn stigahá, höfðu unnið 5 leiki og tapað jafnmörgum. Það leit því allt út fyrir hörkuleik í Ásgarði. Stjörnumenn höfðu ekki sýnt sparihliðarnar í undanförnum leikjum og aðeins unnið einn leik af síðustu fimm fyrir kvöldið í kvöld.
Stjörnumenn komu mjög ákveðnir til leiks og vildu augljóslega bæta upp fyrir slæmt tap gegn Haukum í síðustu umferð. Heimamenn fóru oft illa með svæðisvörn Hamars og þá var vörnin að smella hjá Garðbæingum. Hamarsmenn voru svolítinn tíma í gang en komust meira og meira í leikinn eftir því sem leið á fyrsta fjórðung og að honum loknum hafði Stjarnan sjö stiga forystu, 25-18.
Það sama var upp á teningnum í öðrum leikhluta. Stjarnan var að spila vel og var vörnin þeirra sérstaklega góð og til dæmis sást André Dabney varla allan leikinn. Eftir þriggja stiga flautukörfu frá Daníeli Guðmundssyni fóru Garðbæingar í hálfleikinn með þægilegt 18 stiga forskot, 46-28.
Í þriðja leikhluta héldu yfirráð heimamanna áfram, allur vindur virtist úr Hamarsmönnum og Stjörnumenn gengu á lagið. 65-40 var staðan eftir þriðja leikhluta og Hvergerðingar virtust týndir eftir hálfleik.
Það þurfti því ekki að koma á óvart að Stjörnumenn næðu að innsigla stigin tvö en lokatölur í Ásgarði voru 83-62, heimamönnum í vil. Þess má geta að ungur leikmaður í liði Stjörnunnar, Dagur Kár Jónsson, skoraði sín fyrstu úrvalsdeildarstig á ferlinum en Dagur sem fæddur er 1995 er sonur ekki ómerkari manns en Jóns Kr. Gíslasonar fyrrum landsliðsþjálfara.
Stigahæstur í liði Garðbæinga var Justin Shouse með 21 stig og Marvin Valdimarsson setti 19 gegn gömlu félögunum. Hjá Hamri var Ellert Arnarson með 16 stig og Darri Hilmarsson 14.
Umfjöllun: Elías Karl Guðmundsson
Ljósmynd/ [email protected] – Jovan Zdravevski býður hér upp á myndarlegt ,,splitt-skot” þar sem Svavar Páll Pálsson kemur engum vörnum við.