Haukar lögðu Njarðvík í kvöld í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna. Eftir leikinn er staðan jöfn 2-2 og þarf því oddaleik til þess að skera úr um hvort liðið hampar Íslandsmeistaratitlinum.
Fyrir leik
Njarðvík tók á móti Haukum í kvöld í fjórða leik úrslitaeinvígis liðanna í Subway deild kvenna. Allir hafa leikirnir til þessa unnist á útivelli í einvíginu, en Njarðvík leiddi 2-1 og gátu því með sigri í kvöld tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í fyrsta skipti síðan 2012.
Áhugaverður moli varðandi þjálfarateymi liðanna er að þjálfari Hauka Bjarni Magnússon og aðstoðarþjálfari Njarðvíkur Lárus Ingi Magnússon eru bræður. Enn áhugaverðara er að líta til þess að í eina Íslandsmeistaratitil Njarðvíkur til þessa árið 2012 voru þeir bræður einnig í sömu hlutverkum sem aðalþjálfari og aðstoðarþjálfari, en serían það árið fór 3-1 fyrir Njarðvík. Alveg eins og möguleiki var til í kvöld.
Gangur leiks
Haukar byrja leikinn betur og ná að vera skrefinu á undan á upphafsmínútunum. Þó munaði ekki miklu á liðunum, 4 stiga munur eftir um 5 mínútna leik, 4-8. Heimakonur gera sig alveg líklegar til þess að gera þetta að spennandi leik með góðri varnarframmistöðu í fyrsta leikhlutanum, þar sem þær halda Haukum í aðeins 14 sigum. Haukar þó, virðast líka vera mættar til að verjast og halda Njarðvík í 8 fyrsta fjórðungs stigum. Sóknarlega munaði mest um Evu Margréti Kristjánsdóttur fyrir Hauka á þessum upphafsmínútum, en hún var komin með 8 stig á fyrstu 10 mínútunum.
Njarðvík nær að minnka muninn um miðbygg annars leikhlutans og eru aðeins stigi fyrir aftan þegar rúmar fjórar mínútur eru til hálfleiks, 24-25. Undir lok fjórðungsins ná heimakonur svo að komast yfir í fyrsta skipti í leiknum. Haukar jafna leikinn þá aftur fyrir lok hálfleiksins, en staðan er 32-32 þegar að liðin halda til búningsherbergja. Stigahæst fyrir Njarðvík í fyrri hálfleiknum var Aliyah Collier með 20 stig á meðan að Eva Margrét Kristjánsdóttir var með 11 stig fyrir Hauka.
Haukar hefja seinni hálfleikinn af krafti. Ná að halda heimakonum stigalausum fyrstu þrjár mínúturnar, en gengur hálf erfiðlega að skora sjálfum og eru því bara 3 stigum yfir eftir þann tíma, 32-35. Upp úr því ná Haukar svo besta kafla sínum í leiknum, 2-11 áhlaupi og eru því 12 stigum yfir þegar að tæpar þrjár mínútur eru eftir af þriðja leikhlutanum, 34-46. Mikið til var það áhlaup Bríeti Sif Hinriksdóttur að þakka, sem bæði var að setja niður þrista og þá var hún búin að stela 5 boltum það sem af var leik á þessum tímapunkti. Haukar ná að halda forystunni úr þann þriðja, en staðan fyrir þann fjórða var 37-49.
Haukakonur ná að halda í forskotið í upphafi þess fjórða, eru enn 13 stigum á undan þegar fimm mínútur eru eftir af leiknum, 43-56. Undir lokin reyna Njarðvíkurkonur hvað þær geta til þess að minnka muninn og eru aðeins fimm stigum fyrir aftan þegar tæpar tvær mínútur eru eftir, 51-56. Þrátt fyrir mikið havarí á lokasekúndunum, þar sem á tímabili það leit út fyrir að liðin ætluðu að fara að slást, náði Njarðvík ekkert að komast nær. Haukar tryggja sér að lokum oddaleik um titilinn með nokkuð öruggum sigri, 51-60.
Atkvæðamestar
Atkvæðamest í liði Njarðvíkur var Aliyah Collier með 27 stig, 20 fráköst og Lavína de Silva bætti við 8 stigum og 8 fráköstum.
Fyrir Hauka var Eva Margrét Kristjánsdóttir atkvæðamest með 17 stig og 7 fráköst. Henni næst var Bríet Sif Hinriksdóttir með 11 stig, 5 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta.
Hvað svo?
Haukar náðu með sigrinum að tryggja sér oddaleik um titilinn, en hann mun fara fram komandi sunnudag 1. maí í Ólafssal.
Myndasafn (Bára Dröfn)